Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Efnagreiningar eiga að sanna að moltan standist kröfur

18.06.2020 - 19:00
Innlent · GAJA · Sorpa
Framkvæmdastjóri Sorpu segir að teknar verði reglulegar efnagreiningar úr moltunni sem framleidd verður í Gaju, gas-og jarðgerðarstöðinni á Álfsnesi, til að slá á efasemdaraddir um hvort hún standist gæðakröfur.

Framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöðina hófust í október 2018. Nú er stöðin tilbúin til notkunar og var kynnt fyrir eigendum, stjórn og fjölmiðlum í dag, ásamt nýju flokkunarkerfi í Gufunesi. Tilgangur stöðvarinnar er að hætta að urða heimilissorp á höfuðborgarsvæðinu með því að endurvinna það, og framleiða úr því metan og moltu. Talsvert hefur verið fjallað um moltuna sem Gaja mun framleiða en efasemdarraddir eru uppi um hvort hún eigi eftir að standast gæðakröfur. 

„Það er okkar að framleiða moltuna og sýna fram á að gæðakröfur séu uppfylltar. Og til þess að slá á tortryggnina ætlum við að taka efnagreiningar úr hverri einustu lotu og gera þær sýnilegar á heimasíðu okkar. Það mun ekki fara á milli mála að afurðir okkar uppfylla allar kröfur starfsleyfis,“ segir Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri Sorpu.

Segir misgóða flokkun ekki koma að sök

Ekki er samræmd flokkun milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og allur gangur á hvort lífrænt sorp er flokkað sérstaklega. Helgi segir það ekki koma að sök. Ekki standi til að selja moltuna.

„Við munum geta tekið við úrgangi hérna til vinnslu í Gaju hvort sem hann er sérflokkaður hjá sveitarfélögunum eða ekki, það breytir engu um vinnsluna sem hér á sér stað. Þannig Gaja mun skila hlutverki sínu,“ segir Helgi.

Framkvæmdin við GAJU er umdeild enda hefur hún kostað sitt. Upphaflega átti hún að kosta þrjá milljarða en framkvæmdin hefur nú kostað íbúa höfuðborgarsvæðisins um vel yfir fimm milljarða og komið Sorpu í djúp fjárhagsleg vandræði sem ekki sér fyrir endann á. 

Eigendafundur í næstu viku

Ekki er búið að móta sérstaka aðgerðaáætlun til að snúa við rekstri Sorpu en ljóst er að eigendurnir þurfa þá að koma með aukið fjármagn inn í reksturinn. Þá verða gjaldskrár hækkaðar. 

„Það er náttúrulega ljóst að eigendur félagsins þurfa að standa á bak við þá fjárfestingu sem vissulega hefur farið fram úr áætlunum eins og öllum er kunnugt, og þær áætlanir verða lagðar fyrir eigendur í lok næstu viku,“ segir Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður Sorpu.