Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dettifoss og Rauðufossar í hættu að tapa verndargildi

18.06.2020 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Dettifoss að austanverðu og Rauðufossar, sem eru innan friðlandsins að Fjallabaki, eru í verulegri hættu að tapa verndargildi sínu sem náttúrusvæði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu Umhverfisstofnunar. 

Umhverfisstofnun gefur árlega út skýrslu um ástand friðlýstra svæða á Íslandi. Rauði listinn svo nefndi yfir svæði í hættu, sem gefinn er út á tveggja ára fresti og byggir á skýrslunni hefur svo það markmið að forgangsraða kröftum og fjármunum til verndunar.

Engin breyting var milli ára á þeim áfangastöðum sem falla í rauða flokkinn og teljast Dettifoss að austanverðu og Rauðufossar þar af leiðandi í mestri hættu.

Nokkur breyting var hins vegar á áfangastöðum í appelsínugula flokknum. Það eru staðir sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu verði ekki gripið til aðgerða til að snúa þeirri þróun við.

Meðal þeirra staða komu nýir inn þann á lista eru Helgafell í landi Hafnarfjarðar, Ástjörn, skíðasvæðið í Bláfjöllum og Tungufoss. Þess má geta að nokkur svæðanna var verið að meta í fyrsta skipti.

Auk þeirra eru á listanum Álafoss, Ásfjall, Eldborg undir Geitahlíð, Landmannahellir og Landmannalaugar. Laugavegur og Laugahringur innan friðlandsins að Fjallabaki hverfa hins vegar af listanum. 

Helgustaðanáma, Hleinar, Hlið, Hveravellir, Laugarás og Rauðhólar eru sömuleiðis áfram í appelsínugula flokknum og það eru líka Leiðarendi, Sogin, Stapar við Kleifarvatn og Vigdísarvellir.  

Hólmanes og Grafarlönd útskrifast hins vegar og það gera líka Skógaheiði við Skógafoss og fólkvangur Neskaupstaðar. Eru breytingar á innviðauppbyggingu, frekari stýringu gesta og aukin landvarsla eru sagðar helstu ástæður þeirra breytinga.