CNN líkir Íslandi við „hliðstæðan veruleika“

18.06.2020 - 21:22
Bláa lónið.
 Mynd: Harshil Gudka - Unsplash
CNN Travel fjallar ítarlega um ástandið á Íslandi eftir COVID-19 faraldurinn. Fréttin birtist á forsíðu vefjar CNN en í umfjölluninni segir að ástandið á Íslandi komi gestum fyrir sjónir sem „hliðstæður veruleiki þar sem líkast er að COVID-faraldurinn hafi aldrei orðið. “

Í umfjölluninni kemur fram að veitingastaðir í Reykjavík séu þéttsetnir og fólk spóki sig á götum úti. Að mati greinarhöfunda eru aðstæðurnar hér á landi  gjörólíkar því sem þekkjast í ríkjum þar sem hömlur eru enn strangar. 

Landið er tómt

Blaðamenn CNN nefna að þótt Íslendingar séu duglegir að fara út úr húsi, þá sé fámennt við helstu náttúruperlur landsins. Vanalega sækir fjöldi ferðamanna Ísland heim á sumrin, en slíkt er ekki uppi á teningnum í heimsfaraldrinum. 

„Hver sá sem leggur á sig að ferðast til landsins má búast við óvæntum glaðningi. Á þessum árstíma er vanalega krökkt af ferðamönnum en nú er landið tómt. Þeir sem heimsækja náttúruperlur á borð við Gullfoss og Geysi hafa nú staðinn út af fyrir sig,“ segir í greininni.  

Geysir í Haukadal er vinsæll áfangastaður ferðafólks.

Allir ferðamenn skimaðir

Í greininni segir að þrátt fyrir að Ísland kunni að vera ofarlega á lista hjá þeim sem þreyttir eru á útgöngubanni og takmörkunum á samvistum við annað fólk, þá þurfi allir ferðamenn að greiða fyrir skimun við komuna hingað til lands. 

Greinarhöfundar lýsa í þaula ferlinu sem tekur við þegar ferðamenn lenda í Keflavík. 

„Ef niðurstöður COVID-prófsins eru neikvæðar, þá er gestum frjálst að njóta landsins án nokkurra takmarkana,“ segir í greininni. 

Blaðamenn CNN fara fögrum orðum um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við faraldrinum. Þeir veja athygli á að í upphafi hans hafi hlutfall tilfella miðað við höfðatölu hér á landi verið með því hæsta í Evrópu. Vitnað er í Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem lýsir því hvernig raðgreining á veirunni gerði vísindamönnum kleift að fylgjast með stökkbreytingum í henni. Slíkt hafi gert þeim hægara um vik að fylgjast með hvernig veiran breiddist út í samfélaginu. 

Íslendingar ekki vanir atvinnuleysi

Greinarhöfundar ræddu einnig við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Aðspurð um hvort hún hefði áhyggjur af því að smitum kunni að fjölga eftir opnun landamæranna segist Katrín vissulega vera uggandi yfir möguleikanum á annarri bylgju faraldursins. Hún bendir þó á að atvinnuleysi blasi við þjóðinni. 

„Við erum ekki sérlega vön því að hlutfall atvinnulausra sé hátt. Þess vegna hafa stjórnvöld að leiðarljósi að lækka þetta hlutfall og stuðla að því að fleira fólk geti mætt aftur til vinnu.“

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi