Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svíar mega fara til 10 landa - meðal annars Íslands

17.06.2020 - 16:25
epa08192260 Swedish Foreign Minister Ann Linde talks with Russian Foreign Minister Sergei Lavrov (not pictured) during their meeting at the Russian Foreign Ministry guest house in Moscow, Russia, 04 February 2020.  EPA-EFE/MAXIM SHIPENKOV
Ann Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar Mynd: EPA - RÚV
Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, tilkynnti í dag um rýmkun ferðatakmarkana sem Svíar hafa þurft að sæta síðan í mars. Frá og með 30. júní mega Svíar ferðast til tíu landa, þeirra á meðal er Ísland sem er það eina af Norðurlöndunum sem býður Svía velkomna.

Hin löndin eru Belgía, Frakkland, Grikkland, Ítalía, Króatía, Lúxemborg, Portúgal, Sviss og Spánn. Ferðatakmarkanir í Svíþjóð hafa verið í gildi frá 14. mars þegar stjórnvöld réðu landsmönnum frá ónauðsynlegum utanlandsferðum.

Linde greindi frá þessu á fréttamannafundi í hádeginu. Þar sagði hún að rýmkunin væri afleiðing þess að þessi lönd hafi ákveðið að opna landamæri sín fyrir Svíum. Þessi tilhögun gildir til 15. júlí og verður þá endurskoðuð. Enn er ráðið frá ferðum til landa utan Evrópusambandsins, Evrópska efnahagssvæðisins og Schengen fram til 31. ágúst.

Ekkert af nágrannalöndum Svíþjóðar er á listanum og Ísland er eina Norðurlandið þar. „Við ráðum frá ferðum til nágrannalanda okkar. Það gildir líka um þá sem búa skammt frá landamærunum,“ sagði Linde.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í viðtali við sænska dagblaðið Expressen í dag að honum þætti „einkennilegt“ að Svíar væru ekki velkomnir til Danmerkur, sérstaklega í ljósi þess að hlutfallslega fleiri hafi smitast í Kaupmannahöfn en á Skáni, handan Eyrarsundsins. 

Svíþjóð er það Norðurlandanna sem COVID-19 faraldurinn hefur leikið verst. Samkvæmt frétt sænska ríkisútvarpsins, SVT, hafa 5.041 látist þar í landi af völdum sjúkdómsins og 54.562 hafa smitast.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir