Sigríður Soffía Níelsdóttir er dansari og danshöfundur. Sýning hennar Eldblóm er hluti af Listahátíð í Reykjavík. Hún er undanfari að flugeldasýningunni á Menningarnótt en á síðastliðnum árum hefur Sigríður Soffía hannað flugeldasýningar í Reykjavík og Barcelona.
„Þar var ég að semja dansverk fyrir flugelda,“ segir hún. „Ljósið sem hreyfist er dansararnir og sviðið er himininn.“
Fyrir nokkrum árum áskotnaðist Sigríði Soffíu japönsk bók, biblíu flugeldanna eins og hún kallar það.
„Þar komst ég að því að ástæðan fyrir því að ég hafði heillast mikið af blómum í gegnum árin var sú að ég var að horfa á sama formið; að flugeldar voru upphaflega hannaðir eftir blómum. Japanska orðið fyrir flugelda er hanabi sem þýðir í beinni þýðingu eldblóm. Mér fannst þetta sérstaklega áhugavert og byrjaði að safna fræjum, því mig langaði til að kanna hvort ég gæti ræktað flugeldasýningu. Þetta er dansverk í gegnum það að flugeldarnir dansa og núna erum við í rauninni komin í „slow-motion dansverk“. Þetta er í raun og veru flugeldasýningin í ágúst nema teygð yfir þriggja mánaða tímabil.“