Rýmka samkomutakmarkanir á meðan smitum fjölgar

17.06.2020 - 17:57
epa08485509 A supporter of the Brazilian President attends a rally to show her support, in Brasilia, Brazil, 14 June 2020.  EPA-EFE/Joedson Alves
Frá Brasilíu Mynd: EPA-EFE - EFE
Um níu hundruð þúsund tilfelli af COVID-19 hafa greinst í Brasilíu sem er það land heims þar sem næstflestir hafa greinst. Meira en 35.000 tilfelli greindust í gær og meira en 45.000 hafa látist  í landinu af völdum sjúkdómsins. Helgi Þór Þorbergsson er búsettur í borginni Fortaleza í norðausturhluta landsins. Hann segir að mörgum þyki það skjóta skökku við að samkomutakmarkanir séu nú rýmkaðar í landinu á meðan tilfellum fjölgar svona ört.

Helgi Þór segist reyna að halda sig sem mest heima við í þessu ástandi. Hann segir að samkomutakmarkanir hafi verið í gildi í landinu undanfarna tvo mánuði. „Það er ekki alveg útgöngubann en fólki er ráðlagt að vera inni. Allir veitingastaðir eru lokaðir, allar verslanir nema matvöruverslanir og apótek,“ segir Helgi Þór.

Í síðustu viku var byrjað að slaka á ýmsum samkomutakmörkunum. Helgi Þór segir skiptar skoðanir um það meðal landsmanna. „Mörgum þykir þeir vera að slaka á alltof snemma. Þá fylltist allt af fólki niðri í bæ og í verslunarmiðstöðvum og svoleiðis. Þannig að maður getur alveg átt von á að næstunni að þetta hækki enn meira. Það er skylda að vera með grímur þannig að það eru flestir sem hlýða því. En það er líka mikið kæruleysi í gangi sumsstaðar.“

Helgi Þór Þorbergsson
Helgi Þór Þorbergsson Mynd: Aðsend

Dýrt að fara í sýnatöku

Að sögn Helga er sýnataka ekki almenn í landinu. Hún bjóðist fyrst og fremst í gegnum einkarekna heilbrigðisþjónustu og kostnaður við hana sé talsverður.

Hann segir að brasilískir fjölmiðlar séu upp til hópa afar gagnrýnir á viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum. „Það er svona viss hluti sem eru hlynntir þeim. En langstærsti hlutinn er endalaust að berja á ríkisstjórninni,“ segir hann.  

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi