Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýi borgarlistamaðurinn: „Við erum öll sexí“

Mynd: RÚV / RÚV

Nýi borgarlistamaðurinn: „Við erum öll sexí“

17.06.2020 - 14:50

Höfundar

Helgi Björnsson tónlistarmaður og leikari er borgarlistamaður Reykjavíkur 2020. Helgi hefur starfað við tónlist og sviðslistir í um 40 ár og við útnefninguna sagði Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, Helga vel að titlinum kominn, en einhugur var um valið. Hann hefði markað afgerandi spor í dægurmenninguna.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri útnefndi Helga við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. Útnefningin er heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í listalífi og samfélaginu. Helga var veittur ágrafinn steinn, heiðursskjal og viðurkenningarfé.

„Við erum náttúrulega öll sérstök, öll ólík en við eigum eitt sameiginlegt. Við erum öll sexí,“ sagði Helgi þegar hann þakkaði fyrir viðurkenninguna og kallaði svo af krafti: „Eru ekki allir sexí?“

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að Helgi sé fæddur á Ísafirði 10. júlí árið 1958.  Foreldrar hans eru María Gísladóttir fyrrverandi leikskólakennari og Björn Helgason fyrrverandi málarameistari, skíðakappi og landsliðsmaður í fótbolta. Eiginkona Helga er Vilborg Halldórsdóttir leikkona, leikari, leiðsögumaður og textahöfundur.

Í tilkynningunni segir að Helgi hafi enn og aftur unnið sig inn í hjörtu landsmanna með Heima-tónleikunum sjö sem sýndir voru beint í sjónvarpi Símans á meðan samkomubannið vegna COVID-19 stóð yfir. Hugmyndina fékk hann þegar hann fylgdist með vinum sínum á Ítalíu sem sungu á svölum og streymdu örtónleikum úr stofunum sínum í útgöngubanni. Öllum viðburðum sem Helgi hefði átt að taka þátt í hafði verið frestað og því fannst honum upplagt að gera eitthvað á þessa leið; búa til tónleika, nokkurs konar sveitaballsstemningu heima í stofu og senda heim í stofur.

Helgi hefur sungið inn á 25 plötur, leikið í 15 leikritum og söngleikjum og 20 kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.