Mótmæli, gjörningur og flugvélartruflun á hátíðarhöldum

Mynd: Skjáskot / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þurfti að gera hlé á hátíðarræðu sinni á Austurvelli þegar flugvél flaug yfir meðan á hátíðarhöldum stóð. Katrín brosti í fyrstu og leit svo til himins. Mótmæli settu nokkurn svip á hátíðarhöldin þar sem menn stilltu sér upp með mótmælaskilti fyrir aftan forsætisráðherra. Lögregla hafði svo afskipti af listamanninum Snorra Ásbjörnssyni þar sem hann hélt ræðu af svölum íbúðarhúss og kvaðst vera fyrsta karlkyns fjallkonan.

Katrín var að flytja hátíðarræðu forsætisráðherra þegar flugvél flaug yfir Austurvöll til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. Miðað við flugáætlun virðist það hafa verið flugvél Air Iceland Connect sem var að koma frá Egilsstöðum. Katrín varð að gera nokkuð hlé á ræðu sinni vegna þessa meðan hljóðin úr flugvélinni yfirgnæfðu ræðuhöldin.

Í bakgrunni hafði Katrín Skiltakarlana, sem svo kalla sig. Þeir héldu á lofti skiltum sem vísuðu til þess að eignarhald Samherja færist frá stofnendum fyrirtækisins til barna þeirra. „Takk pabbi“ og „Takk fyrir peninginn“ stóð á skiltum þeirra. Þar var einnig Hörður Torfason með borða sem á stóð „Við eigum nýja stjórnarskrá!“.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Snorri Ásmundsson hafði lýst því yfir fyrir nokkrum dögum að hann yrði fyrsta karlkyns fjallkonan. Það kom svo í ljós í dag hvað hann átti við. Þá hélt hann ræðu af svölum húss, þar til lögreglumenn höfðu afskipti af Snorra og sögðu að hann væri að trufla hátíðarhöldin. Ræðan virtist vekja kátínu sumra nærstadda en lögreglan batt snaran enda á hana.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi