Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Metfjöldi smita í þremur ríkjum Bandaríkjanna

17.06.2020 - 09:49
epa08488709 People queue to receive bags with food and essential products received from donations following the pandemic coronavirus COVID-19 at the association Colis du Coeur, in Carouge near Geneva, Switzerland, 16 June 2020.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Metfjöldi kórónuveirusmita greindist í gær í þremur ríkjum Bandaríkjanna, Arizona, Flórída og Texas. Þessi ríki eiga það sameiginlegt að hafa fjölgað skimunum til muna, en þar er á sama tíma verið að aflétta lokunum til að koma efnahagslífinu af stað á ný.

Í gær greindust 2.783 með Covid-19 Í Flórída, 2.622 í Texas og 2.392 í Arizona. Ron DeSantis, ríkisstjóri í Flórída, sagði þessa aukninga aðallega vegna fleiri skimana, en ekki vegna þess að fleiri fyrirtæki væru að opna að nýju og fleira fólk á ferli. Í Bandaríkjunum eru flest staðfest tilfelli Covid-19, rúmlega 2,2 milljónir en næst flest í Brasilíu, nærri 930 þúsund. Þar voru yfir 35 þúsund tilfelli greind í gær og rúmlega 1.300 létu lífið af völdum sjúkdómsins. Fjöldi tilfelli stefnir nú hraðbyri í milljón í landinu en fleiri en 45 þúsund eru látnir af hans völdum í Brasilíu. 

Grein eftir Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, birtist í Wall Street Journal í gær en þar segir hann að staðan í Bandaríkjunum sé mun betri en sú mynd fjölmiðlar í landinu dragi upp. Þá hafi fjölmiðlar fjallað um þá ógn sem stafi af annarri bylgju faraldursins og áhyggjur margra þar að lútandi. Mike Pence segir þetta ýkjur í greininni. Nú sé heilbrigðiskerfið bandaríska enn öflugra en áður og í betri stöðu til að takast á við faraldurinn. Sigur sé að hafast í baráttunni við þennan ósýnilega óvin. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti lítur stöðuna sömu augum og varaforsetinn. Hann ætlar að halda sinn fyrsta fjöldafund í langan tíma í Oklohoma-ríki um helgina, en þar eins og í fleiri ríkjum Bandaríkjanna er smitum enn að fjölga hratt.