
Harpa hefur kostað ríki og borg 12,5 milljarða
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, um byggingar- og rekstarkostnað Hörpu.
Í þessum tölum er miðað við fast verðlag.
Ríkið á 54% í Hörpu og borgin á 46%. Framlög þessara tveggja eigenda eru af tvennum toga. Auk framlags til rekstrar hússins endurgreiða þau byggingakostnað og búnað. Kostnaður ríkisins að því leyti nam 5.593 milljónum króna á föstu verðlagi árin 2011-'19 og kostnaður borgarinnar var 4.765 milljónir. Rekstrarframlögin hófust árið 2013 þegar ljóst var að reksturinn væri ekki sjálfbær
Í svari ráðherra kemur fram að Alþingi hafi verið upplýst um byggingakostnað Hörpu. Það hafi verið gert á 145. löggjafarþingi. Staðvirtur heildarkostnaður við byggingu hússins, með lóð, hafi verið 26,6 milljarðar króna.
Í svarinu kemur einnig fram að fasteignagjöld af húsinu hafi samtals verið tæpir tveir milljarðar á föstu verðlagi frá opnun hússins 2011.