Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

George Floyd var eitt sinn rapparinn Stóri Floyd

Mynd: EPA-EFE / EPA

George Floyd var eitt sinn rapparinn Stóri Floyd

17.06.2020 - 12:58

Höfundar

George Floyd, sem lést á hörmulegan hátt í höndum lögreglu og kom af stað mótmælum sem ekki sér fyrir endann á, var á sínum yngri árum liðtækur rappari. Hann ólst upp í fátækrahverfum Houston og hékk í sömu kreðsum og hinn áhrifamikli plötusnúður DJ Screw.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

George Floyd var borinn til grafar í heimabæ sínum Houston í Texas í vikunni, 46 ára að aldri. Eins og frægt er orðið hefur risið upp alda mótmæla í Bandaríkjunum og reyndar vítt og breitt um heiminn eftir að hann var drepinn af lögreglumönnum meðan á handtöku hans stóð í Minneapolis. Málið hefur vakið upp miklar umræður um kynþáttahatur og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum og sjá má aukinn þrýsting á stjórnvöld þar í landi um að breyta lögunum til hins betra, sem og að vekja samfélagið til umhugsunar um djúpstæða kynþáttahyggju.

Margir tónlistaráhugamenn hafa undanfarna daga vakið athygli á að Floyd tók virkan þátt í rappsenu Houston-borgar snemma á tíunda áratugnum, en hann var í fylkingu með einum áhrifamesta plötusnúði allra tíma - DJ Screw - sem breytti tónlistarsögunni á sínum tíma með sinni eigin stefnu, sem kölluð var „chopped ’n’ screwed“. Ég hef áður fjallað um tónlistarmanninn DJ Screw en það sem einkenndi stefnuna var hvernig Screw var fyrstur til að hægja á tónlist og skapa þannig ákveðin hughrif. Screw kom rappsenu Houston á kortið og hefur haft feikileg áhrif á þá rapptónlist sem vinsælust er í dag, sem og fjölda annarra tónlistarstefna. George Floyd eða Big Floyd eins og hann var kallaður kom fram á að minnsta kosti sex DJ Screw útgáfum áður en hann lést nýlega á hörmulegan hátt.

DJ Screw, sem hét réttu nafni Robert Earl Davis Jr., tók upp og gaf út hundruð kassetta og geisladiska þar sem menn ortu á staðnum af fingrum fram yfir takta sem Screw þeytti með sínu einkennandi skífuskanki. George Floyd var einn af röppurunum í hópnum sem tóku þátt í þessum upptökum, en þær stóðu iðulega tímunum saman langt fram á nætur. Þá gerði Screw gjarnan persónulegar kassettur og gaf vinum og vandamönnum. Floyd heitinn eignaðist tvær slíkar sem segir til um í hversu miklum metum hann var hjá hópnum í kringum Screw, sem gekk undir nafninu Screwed Up Click.

Floyd heitinn kynntist DJ Screw ungur að árum. Hann frétti af Screw þessum þegar hann var farinn að vekja mikla athygli í Houston fyrir kassetturnar sínar, en hann tók þær upp og bauð ungum röppurum að rappa yfir þær á staðnum, eða frístæla eins og það kallast. Sveimkenndur hljómur og dýpkaðar raddir voru ein helstu einkenni tónlistar DJ Screw, en þetta var allt tekið upp á venjulegum hraða og síðan hægt niður úr öllu valdi, taktarnir látnir hökta og tónlistin skreytt með skífuskanki og alls kyns sækadelískum áhrifum.

Þessar kassettur seldust síðan eins og heitar lummur. Floyd heimsótti fyrst hljóðverið sem var heima hjá Screw árið 1994, greip í hljóðnemann og hlutirnir fóru að gerast. 

Hér má heyra brot úr einni af þessum frægu kassettum, Chapter 007: Ballin in Da Mall, sem var tekin upp í tilefni af afmæli Floyd árið 1997.

Á annarri persónulegri kassettu Floyd, sem honum var gefin árið eftir, Chapter 068: Tre World, heyrum við Floyd syrgja rapparann fræga Fat Pat og hvetja til friðar í Houston, en Fat Pat var myrtur áður en kassettan var tekin upp árið 1998.

Floyd hélt ekki áfram í tónlist eins og ýmsir aðrir rapparar sem fetuðu sín fyrstu spor með DJ Screw en hann lenti í ýmiss konar ógöngum næstu árin. Hann var meðal annars dæmdur í fangelsi fyrir vopnað rán árið 2013 og vímuefnin voru aldrei langt undan. Hann einbeitti sér þó næstu árin í að vinna í þágu samfélagsins í kringum hann og vann sem sjálfboðaliði fyrir kirkju í heimabæ sínum og reyndi að feta hinn þrönga veg. Vann við það meira að segja að tala gegn byssuglæpum í hverfinu þar sem hann bjó en þar var af nægu að taka en fíknin var aldrei langt undan. Árið 2014 ákvað Floyd að reyna að byrja upp á nýtt í Minneapolis, þar sem hann fluttist og starfaði meðal annars sem vörubílstjóri, dyravörður og öryggisvörður fyrir Hjálpræðisherinn. 

Dauði George Floyd hefur vakið upp ófyrirséðar afleiðingar og svo virðist sem þessi hörmulegi atburður muni leiða gott af sér í breytingum á samfélaginu og dómskerfinu í Bandaríkjunum, svo að ýmsir hafa kallað þetta píslardauða. Margir gamlir félagar hans úr rappheiminum í Houston hafa minnst hans eins og Paul Wall, Slim Thug og Trae the Truth, sem sagði í viðtali við tónlistarveituna Pitchfork að Floyd væri stoltur ef hann hefði upplifað vitundarvakninguna sem á sér stað í heiminum um þessar mundir.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hluti af samfélaginu eða staðalímynd?

Fótbolti

„Fyrir mér má kalla hann rasista“

epa08475449 Dray Tate sings 'A Change is Going to Come' while a collage of protests plays on a video screen and and visual artist Ange Hillz creates a painting of George Floyd during the funeral for George Floyd at The Fountain of Praise church in Houston, Texas, USA, 09 June 2020. A bystander's video posted online on 25 May, appeared to show George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as an officer knelt on his neck. The unarmed Black man later died in police custody and all four officers involved in the arrest have been charged and arrested.  EPA-EFE/Godofredo A. Vasquez / POOL
Erlent

George Floyd borinn til grafar í Texas

Tónlist

Hóstasaft og hægir taktar – hiphopsena Houston