Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fátt meira viðeigandi á 17. júní en að friða Geysi

Geysir friðlýstur 17.6.2020
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umverfis- og auðlindaráðherra við friðlýsingu Geysis í dag Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði friðlýsingu Geysis í Haukadal í dag, 17. júní. Með undirrituninni er Geysir, innan marka jarðarinnar Laugar, friðlýstur sem náttúruvætti. Ráðherra sagði að fátt væri meira viðeigandi á sjálfan þjóðhátíðardaginn en að friðlýsa Geysi og Geysissvæðið.

„Geysir, Strokkur og svæðið í heild sinni er sennilega langþekktasta náttúruundur landsins og hefur gríðarlegt aðdráttarafl. Svæðið er líka órjúfanlegur hluti af ímynd Íslands sem lands náttúru, sögu og menningar. Þar sem Geysissvæðið er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar tel ég friðlýsingu þess vera heimsviðburð og Íslendingar mega vera stoltir af því að taka þá ákvörðun að vernda svæðið fyrir núverandi og komandi kynslóðir, allsstaðar í heiminum,“ er haft eftir Guðmundi Inga í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Þar segir að markmiðið sé að stuðla að varðveislu sérstæðra jarðmyndana, hvera, örvera og sérstæðs gróðurs á hverasvæðinu sem er einstæður á lands- og heimsmælikvarða.

Strokkur, Sóði og Sísjóðandi eru á friðlýsta svæðinu

Innan þess svæðis sem friðlýst var í dag eru fjölmargir hverir og laugar auk Geysis. Meðal þeirra eru Strokkur, Blesi, Sóði, Litli Geysir, Litli Strokkur, Vigdísarhver, Háihver, Sísjóðandi og Óþverrishola. Einnig er þar hverahrúður á stóru samfelldu svæði, Laugarfell, plöntutegundin laugadepla sem er skráð á válista og þá eru þar menningarminjar. Meðal þeirra eru svokallaðir konungssteinar sem vitna um heimsóknir þriggja konunga Danmerkur hingað til lands.

Svæðið nýtist til útivistar og náttúrfar endurheimt

Með friðlýsingunni er stuðlað að því að svæðið nýtist til útivistar og ferðaþjónustu til framtíðar og sé í stakk búið til að taka á móti þeim fjölda gesta sem sækja svæðið heim á ári hverju. Þá er einnig stuðlað að endurheimt náttúrufars á svæðinu sem raskað hefur verið og það fært til fyrra horfs eins og kostur gefst á.

Undirritunin fór fram á hverasvæðinu í Haukadal að viðstöddu sveitarstjórnarfólki í Bláskógabyggð, fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og fleiri gestum. Karlakór Hreppamanna söng við athöfnina. 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir