
Vinna nefndarinnar varð marklaus vegna upphlaupa
Hún hafi sagt upp sem formaður nefndarinnar til þess að geta varpað ljósi á að gagnrýni sem hún sætti sem formaður nefndarinnar væru skálkaskjól meirihlutans til að beita aðferðum sem hún sé ósammála.
„Ég er að segja að vinna nefndarinnar var orðin marklaus vegna síendurtekinna upphlaupa, sem snúa að endalausum ásökunum um að ég væri að misnota stöðu mína þegar ég var að beita mínu valdi, að ég væri að traðka á virðingu nefndarinnar og svo framvegis.“
Þórhildur Sunna sagði að það að loka þessu máli með bókun þrátt fyrir ósætti innan nefndarinnar hafi sett slæmt fordæmi um að þegar meirihlutanum „sé farið að leiðast frumkvæðisathugun, ef honum líkar ekki þær upplýsingar sem komnar eru fram,“ geti hann í andstöðu við minnihluta lokað málinu óformlega með bókun.
Hún gagnrýndi harðlega að forsætisráðherra skuli veita blessun sína yfir þá aðferðafræði og líkti því við þöggun og leyndarhyggju.