Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill kenna embættismönnum sem mjólka ríkið að spara

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / Rúnar Snær Reynisson
Guðmundur Franklín Jónsson, forsetaframbjóðandi, lagði mikla áherslu á að virkja 25. grein Stjórnarskrárinnar um að forseta sé heimilt að leggja fram frumvörp fyrir Alþingi. Hann var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í dag.

Viðtalið má hlusta á í heild hér fyrir ofan.

Vill sýna gott fordæmi með því að nýta heimildir forseta enn frekar

Guðmundur lagði mikla áherslu á að nýta heimild forseta til að leggja fram frumvörp fyrir Alþingi og málskotsrétt hans til þjóðaratkvæðagreiðslna.

„Ég ætla að virkja þessa litlu grein og breyta þessum lögum til þess að sýna embættismönnum sem eru að mjólka ríkið að nú verðum við að líta í eigin barm og spara.“

„Þú verður að finna einhvern með þér á þingi til þess að setja fram lögin, ég er ekkert að fara að vera með eitthvað einræði. Ég er bara að sýna gott fordæmi með því að nýta og virkja þessa 25. grein í fyrsta sinn og það sama má segja um 26. greinina. Hún var aldrei virkjuð fyrr en Ólafur Ragnar gerði það.“

„Forsetinn á að vera öryggisventill þjóðarinnar. Hann á að beita málskotsréttinum þegar það myndast gjá milli þings og þjóðar og það hefur Guðni ekki gert.“

Guðmundur Franklín talaði einnig um að hann vildi beita sér fyrir því að setja sérstök lög um hvernig sölu bankanna skuli háttað og að hann óttaðist að náttúruauðlindir landsins lentu í höndunum á erlendum fyrirtækjum. 

„Það sem ég er skíthræddur um [...] núna þegar það vantar 450-500 milljarða inn í þjóðartekjurnar, núna næstu átján mánuði er ég svo hræddur um að það að þeir fari að selja auðlindirnar okkar, vegna þess að það er það eina sem þeir eiga eftir. Þeir geta ekki hækkað skattana okkar meira, ég er að reyna að segja það. Þeir þurfa að selja Landsvirkjun og þeir ætla að selja bankana og þetta er versti tíminn til að selja nokkurn skapaða hlut og þá selja þeir til vina og vandamanna og koma því þannig fyrir að þessi fámenna elíta sem stjórnar landinu, hún kemur til með að græða.“

Sagði stjórnskipunarlegt hrun yfirvofandi

Guðmundur gagnrýndi forseta fyrir skipan Landsréttardómaranna og sagði að ef niðurstaða Mannréttindadómstóls yrði staðfest í haust yrði stjórnskipunarlegt hrun í landinu.

„Þetta er svo alvarlegt mál. Þegar niðurstaðan kemur í haust og ef hún verður sama og fyrri niðurstaða, að Landsréttur verði dæmdur ólöglegur þá verður hér stjórnskipunarlegt hrun.“

„Ég skil bara ekki af hverju fjölmiðlar spyrja ekki Guðna Th. Jóhannesen af hverju hann tók sér ekki tvo daga í viðbót og sendi þetta aftur til Steingríms J. til þess að láta kjósa um hvern og einn dómara, þá væri Landsréttur rétt skipaður og löglega. Hvernig dettur fólki í hug að stofna til nýs millidómstigs ólöglega?“ sagði Guðmundur.