Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undirbúa kaup á losunarheimildum vegna Kýótóbókunar

16.06.2020 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra segir að undirbúningur vegna væntanlegra kaupa á losunarheimildum vegna Kýótóbókunarinnar sé hafinn í ráðuneytinu. Samkvæmt útreikningum Umhverfissstofnunar þurfa Íslendingar að kaupa losunarheimildir fyrir þúsundir kílótonna af gróðurhúsalofttegundum.

Ekki ljóst hvað losunarheimildirnar kosta

Umhverfissofnun kynnti, í síðustu viku, loftslagsbókhald sitt þar sem áætlað var uppgjör fyrir Kýótóbókunina. Niðurstöðurnar sýna að Íslendingar eru langt frá því að standa við skuldbindingar sínar og vantar um það bil 4000 kílótonn af CO2-íg umfram inneign. Sérstakur vinnuhópur hefur verið settur á laggirnar þar sem sitja fulltrúar þriggja ráðuneyta, umhverfis-, fjármála-, og utanríkis-, til finna út hvernig best er að mæta þessu. Ekki er ljóst hvað losunarheimildirnar eiga eftir að kosta Íslendinga en heyrst hafa háar tölur jafnvel allt að 10 milljarðar króna. 
 
„Þetta er mjög hátt verð sem þú nefnir þarna og ekki í samræmi við það sem að ég hef heyrt í þeirri umræðu sem verið hefur, en það er eitthvað sem verður bara að koma í ljós hvað er og þarf að takast á við þegar þar að kemur.“ 

Ekki komið inn í fjármálaáætlun

Uppgjörið vegna Kýóto fer fram eftir tvö til þrjú ár. Verð á losunarheimildum getur verið mismunandi eftir tegundum. Til dæmis er hægt að kaupa losunarheimildir af einstökum ríkjum innan Evrópusambandsins með tvíhliða samningum eða losunarheimildir sem tengjast aðgerðum til að draga úr losun í þróunarlöndunum. Þess vegna á kostnaðurinn eftir að koma í ljós.  
 
„En það er ekki búið að gera ráð fyrir kostnaðinum í þeim áætlunum sem hingað til  hafa birst þ.e.a.s í fjárlögum eða fjármálaáætlunum. En við erum að vinna að því samhliða þessari vinnu að leggja mat á það.“ 

Og það er búið að ákveða að greiða þetta? ja við verðum að standa við okkar skuldbindingar það er alveg ljóst og auðvitað er ástæaðan fyrir því að það var ekki gripið nægilega snemma inn í þessa neikvæðu þróun losunar.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV