Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sprengja landamærastöð í Norður-Kóreu

16.06.2020 - 08:05
Smoke rises in the North Korean border town of Kaesong, seen from Paju, South Korea, Tuesday, June 16, 2020. South Korea says that North Korea has exploded an inter-Korean liaison office building just north of the tense Korean border. (Yonhap via AP)
 Mynd: AP
Norður-kóreski herinn skaut í morgun sprengjum á landamærastöð nærri borginni Kaesong á landamærum Norður- og Suður-Kóreu. Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa hótað nágrönnum sínum öllu illu undanfarna daga.

Landamærastöðin var byggð árið 2018 en þar hafa fulltrúar ríkjanna hist síðustu misseri til að miðla málum. Hún var reist á norður-kóresku landi eftir fund leiðtoga ríkjanna, þeirra Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, og Moon Jae-In, forseta Suður-Kóreu. Samband þeirra hefur verið stirt um árabil en versnað síðustu vikur. Spennan í þessari lotu hófst þegar norður-kóresk yfirvöld slitu öllum samskiptum vegna áróðurs sem nágrannar þeirra í suðri sendi yfir landamærin.

Ýmsir hópar í Suður-Kóreu hafa um langt skeið sent upplýsingar til nágranna sinna með ýmsum leiðum, til að upplýsa almenning um stöðu sína og nágranna sinna, en í Norður-Kóreu hafa íbúar ekki aðgengi að frjálsum fjölmiðlum. Þetta hefur vakið reiði stjórnvalda í Norður-Kóreu og Kim Yo-jong, systir leiðtogans í norðri, hótaði því um helgina að sprengja landamærastöðina í loft upp. Mikill sprenging heyrðist við landamærin í morgun og reykur sést nærri landamærastöðinni. Talið er nær víst að hún hafi verið mannlaus, en stöðin hefur ekki verið mönnuð frá því í janúar vegna kórónuveirufaraldursins. Þar hefur ekki verið mikil starfsemi enda samskipti ríkjanna ísköld og ekki von á þýðu í bráð.