Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Prófessorar mótmæla pólitískum afskiptum

16.06.2020 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Andstaða fjármála- og efnahagsráðuneytisins við ráðningu Þorvaldar Gylfasonar sem ritstjóra norræns hagfræðitímarits setur tímaritið niður og er ráðuneytinu til álitshnekkis. Þetta segir Félag prófessora við ríkisháskóla í ályktun. Félagið segir afskipti ráðuneytisins skorta málefnalegan grundvöll og afhjúpa skilningsleysi á vísindastarfsemi. „Félag prófessora við ríkisháskóla mótmælir harðlega hinum pólitísku afskiptum íslenska fjármála- og efnahagsráðuneytisins af ráðningarmálum tímaritsins.“

Stjórn félagsins kom saman til fundar í dag og ræddi þar meðal annars ráðningu ritstjóra Nordic Economic Policy Review. Tímaritið fjallar um hagfræði og er gefið út af norrænu ráðherranefndinni. Fráfarandi ritstjóri stakk upp á Þorvaldi Gylfasyni, prófessor í hagfræði, sem eftirmanni sínum. Til þess þurfti samþykki fjármálaráðuneyta allra Norðurlanda. Íslenska ráðuneytið setti sig gegn ráðningunni og hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagt að það kæmi ekki til greina af hans hálfu að Þorvaldur tæki við ritstjórninni.

Árangur í vísindastarfi

Í yfirlýsingu Félags prófessora við ríkisháskóla segir að áform um að Þorvaldur tæki að sér ritstjórn Nordic Economic Policy Review hafi byggt á miklum árangri hans í vísindastarfi. Á móti hafi andstaða íslenska fjármála- og efnahagsráðuneytisins við ráðningu hans byggt á því mati ráðuneytisins að hann væri of pólitískt virkur til að taka að sér ritstjórnina.

Prófessorarnir segja að hæfni einstaklinga til að starfa á vísindalegum vettvangi, þar á meðal við ritstjórn, eigi einkum að meta út frá þekkingu þeirra, reynslu og árangri. „Vísindamenn geta vissulega verið virkir þátttakendur á ýmsum sviðum samfélagsins, þar með talið á vettvangi stjórnmálanna, og í ýmsum tilvikum er virk samfélagsþátttaka þeirra ávinningur fyrir vísindastarfið um leið og vísindastarfið færir samfélaginu margháttaðan ávinning í formi nýrrar þekkingar og bættra vinnubragða.“

Í ályktun félagsins er tiltekin reynsla Þorvaldar við ritstjórn, ritstörf og vísinda- og sérfræðistörf. Félagið gagnrýnir ráðuneytið fyrir andstöðu sína við ráðningu Þorvaldar. „Þessi afskipti skortir málefnalegan grundvöll og afhjúpa skilningsleysi á vísindastarfsemi. Þau setja hið norræna tímarit niður og eru ráðuneytinu til álitshnekkis,“ segir í yfirlýsingunni. „Íslenskt samfélag þarf síst á því að halda að stjórnvöld leggi stein í götu vísindamanna sem falast er eftir til starfa í krafti þekkingar sinnar.“