Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Ljósmæðrum finnst þær ekki fá að breiða út vængina“

16.06.2020 - 15:55
Mynd: Unsplash / Unsplash
Helmingur ljósmæðra hættir á næstu tíu til fimmtán árum og það er farið að bera á skorti. Hugsanlega er nýliðunin þó aðeins að glæðast. Nú eru 12 tekin inn í meistaranám í ljósmóðurfræði á ári í stað tíu áður. Formaður Ljósmæðrafélags Íslands segir að ljósmæður hafi ekki nægilega mikil völd innan heilbrigðisstofnana. Spegillinn fjallar næstu daga um fleiri stéttir sem glíma við nýliðunarvanda.

Álíka margar og útskrifuðust í byrjun 20. aldar

Í Ljósmæðrafélaginu eru 264 félagsmenn, allt konur. Fimm eru undir þrítugu en 62 á sjötugsaldri. Árlega eru brautskráðar álíka margar og útskrifuðust úr Yfirsetuskólanum í byrjun 20. aldar en landsmönnum hefur stórfjölgað á sama tíma. Þegar er svæðisbundinn skortur á ljósmæðrum og erfitt að ráða í afleysingastöður á sumrin því allar ljósmæður eru ráðnar einhvers staðar. Áslaug Íris Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir líta út fyrir að eftir tíu til fimmtán ár verði mjög erfitt að manna ljósmæðrastöður á Íslandi. „Helmingur félagsins er fimmtíu ára og eldri, eiginlega 55 ára og eldri, og við vitum að þær hætta þá á næstu tíu til fimmtán árum.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Áslaug Íris Valsdóttir.

Kynslóðaskipti

Áslaug segir að starfsánægja meðal ljósmæðra mælist mikil - en hvers vegna eru þær þá ekki fleiri? „Hérna á Íslandi, svo ég tali bara fyrir Ísland, þá er þetta töluvert löng námsskrá, þú þarft sex ár í háskóla áður en þú færð starfsréttindi sem ljósmóðir. Þetta er líka erfitt starf, bæði andlega og líkamlega er þetta frekar krefjandi og erfitt. Það er mikil vaktabyrði, þeir sem fara í þetta starf þurfa að stærstum hluta að vera í vaktavinnu, það eru til þess að gera lág dagvinnulaun, þú getur haft ágæt laun ef þú vinnur mikið utan dagvinnutíma en ef þú hugsar nei, vaktavinna er ekki fyrir mig, þá ertu að horfa á léleg laun og litla uppskeru eftir sex ára nám.“

Hún segist líka taka eftir ákveðnum kynslóðaskiptum. „Það á ekki bara við um ljósmæður, það er held ég líka í hjúkrun. Fólk hugsar með sér, er ég að fara að henda mér út í þetta? Ætla ég að vera fjarri fjölskyldunni á jólunum. Það er held ég minni aðsókn í námið að sumu leyti og líka það að fólk flosnar upp, þetta er bara of erfitt.“

Þungir tímar

Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon - RÚV
Frá kjarabaráttu ljósmæðra árið 2018.

Hún nefnir að undanfarið hafi ljósmæður háð erfiða kjarabaráttu. Gerðardómur úrskurðaði um laun þeirra árið 2018. Það hafi verið mikið álag, illa mannað á spítalanum og umhverfið allt að breytast. „Þetta hefur verið mjög þungt. Þá hugsar fólk sig frekar um en svo eru margar aðrar ástæður, samþættar.“

Ekki í valdastöðu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ljósmóðir við störf.

Áslaug nefnir líka skort á möguleikum til starfsþróunar, það séu afar fáar ljósmæður í almennilegri valdastöðu. „Það er mikil þróun í ljósmóðurfræði en við þróumst ekki í þá átt að við höfum í rauninni einhver ítök í ákvarðanatöku. Við erum sem dæmi nýlega búnar að fá leyfi til að skrifa út getnaðarvarnir til kvenna, pilluna og svona, og þetta er búið að taka 25 ár, þetta er komið í gegn og það eru alls ekki allir sáttir við þessa ákvörðun, við heyrum mikla andstöðu frá mörgum stéttum.“

Hún segir að ljósmæður séu svolítið bundnar við heilbrigðisstofnanirnar, það séu engin önnur störf sem þær sækja í. „Þú ert svolítið bundinn við heilbrigðisstofnanirnar, svona innrammað kerfi í stofnanasamning, þú ert svolítið fastur þar og þó vissulega getirðu þróast upp að ákveðnu marki þá hefurðu ekkert úrval af vinnustöðum, þú getur ekkert hugsað með þér að breyta úr þessari sérhæfingu í þessa, það er miklu þrengri markaður. Núna er til dæmis voða móðins þessi sveigjanlegi vinnutími en þú getur ekki hringt í deildarstjórann þinn og sagt, heyrðu, ég er að hugsa um að mæta níu í fyrramálið, þegar vaktin byrjar átta. Það gengur ekki upp í þessu niðurnjörvaða kerfi þannig að þegar krafan um sveigjanlegan vinnutíma er orðin meiri þá er það ekki mikið í boði. Núna höfum við að vísu, í nýafstöðnum kjarasamningum, gert ákveðnar vinnutímabreytingar sem eru hugsaðar til að gera vaktavinnuna meira aðlaðandi og fjölskylduvænni en hún hefur verið.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á fæðingardeild Landspítalans.

Vaktabreytingin sé gott skref en til að laða fleiri í námið telur Áslaug að það þurfi að veita ljósmæðrum aukið vægi og tækifæri til að móta starfsumhverfið til framtíðar. „Margir upplifa að þær séu rosa duglegar að mennta sig, þær séu hámenntaðar íslenskar ljósmæður en mörgum finnst þær ekki fá að nota sína menntun, þeim finnst þær ekki fá að breiða út vængina eins og þær þurfa.“ 

Skortur á heimsvísu

Rétt eins og í tilviki hjúkrunarfræðinga er skorturinn á ljósmæðrum ekki bundinn við Ísland. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við skorti á heimsvísu á næstu árum. Nú þegar eru 28 ljósmæður komnar yfir 65 ára aldur, þær gætu hætt allar í einu eftir ár eða tvö, en skarð þeirra yrði ekki fyllt á einu ári. 

12 teknar inn í námið í haust

Í fyrra luku tíu framhaldsnámi í ljósmóðurfræði. Átta árið þar á undan og þrjár árið 2017. Alls hefur því 21 ljósmóðir útskrifast á síðastliðnum þremur árum. Nú hefur háskólinn fengið heimild til að taka fleiri inn í einu. Áslaug segir að það berist umsóknir, en undanfarið hafi ekki verið biðlisti inn í námið eins og oft áður. „Háskólinn er búinn að fá leyfi fyrir 12 á ári, það er strax fjölgun um tvær per ár, jafnvel fjórar. Stundum var bara leyfi fyrir átta. Það auðvitað telur og kannski dugar það til.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Læknagarður.

Samkvæmt Háskóla Íslands bárust í vor 18 gildar umsóknir í nám í ljósmóðurfræði til starfsréttinda, líklega verða tólf þeirra samþykktar. Til viðbótar hefja níu sem þegar eru með starfsréttindi meistaranám.