Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Gengur ekki að fólk sé að faðmast í Leifsstöð

16.06.2020 - 16:05
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
„Við sáum það að fólk var að faðmast þegar það kom í Leifsstöð. Slíkt gengur ekki. Hættan er rétt handan við hornið. Það er mjög mikilvægt að menn hugi vel að þessu að þó að menn finni ekki fyrir neinu,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn á fundi almannavarna í dag.

Eiga að haga sér eins og í sóttkví

Tveir farþegar úr flugi frá Kaupmannahöfn greindust með COVID-19 við komuna til landsins í gær. Annar var ferðamaður með mótefni en hinn Íslendingur, búsettur erlendis, með virkt smit. Sá þarf að fara í einangrun. Alls voru tæplega 930 skimaðir fyrir veirunni á landamærunum í gær. 

„Það vantar svolítið á það hjá okkur að skerpa á því að fólk sem fer í sýnatöku hagi sér eins og það sé í sóttkví þar til það fær niðurstöðu úr prófinu,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

„Þetta á ekki síst við um íslendinga af því að við vitum að það er meiri hætta á smiti af því þeir eru í nánara sambandi við landsmenn en ferðamennirnir,“ sagði Alma Möller, landlæknir. 

Nokkrir þurftu að mæta aftur í sýnatöku

Búið er að greina öll sýnin sem tekin voru við landamærin í gær. „Það voru reyndar nokkur sýni sem að misfórust einhverra hluta vegna. Þannig að fólk var kallað inn aftur í endurtekningu,“ sagði Þórólfur.

Á fundinum talaði Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu að sumir hefðu ekki fengið SMS eða skilaboð með niðurstöðum úr skimuninni. „Það er verið að fara yfir hvernig á því stendur. Það hefur komið í ljós að það er þörf á því að hafa betri upplýsingar um að hafa betri upplýsingar um dvalarstað fólks fyrstu dagana ef það næst ekki í það fyrstu dagana,“ segir Páll. Því er verið að bæta forskráningarformið að því leyti. Þá þurfa börn ekki lengur að forskrá sig við komuna til landsins þar sem þau eru undanþegin sýnatöku.