Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Garðabær tapar máli í Hæstarétti vegna Ísafoldar

Mynd með færslu
Frá Hrafnistu Ísafold. Mynd: RÚV
Ríkið á ekki að borga allan rekstrarkostnað við hjúkrunarheimilið Ísafold samkvæmt dómi Hæstaréttar í morgun sem sýknaði ríkið af kröfum Garðabæjar. Hæstiréttur staðfesti þar með dóm Landsréttar.

Garðabær rak hjúkrunarheimilið 2013 til 2017 og krafði ríkið um greiðslu nokkur hundruð milljóna króna vegna taps á rekstrinum árin 2013 til 2015 því framlög ríkisins með daggjöldum nægðu ekki fyrir rekstrarkostnaði.

Garðabær og ríkið gerðu samning 2010 um byggingu heimilisins og að ríkið tæki þátt í greiðslu leigu. Í samningnum kom fram að ríkið og Garðabær myndu gera samning um rekstur heimilisins.

Sá samningur var hins vegar ekki gerður. Þess vegna hafi ríkið ekki skuldbundið sig til að greiða allan kostnað við rekstur heimilisins, segir Hæstiréttur. Ríkið hafi jafnframt axlað skyldur sínar lögum samkvæmt og tryggt Garðabæ fjárveitingar á fjárlögum með greiðslu daggjalda Ísafoldar. 

Hrafnista tók við rekstri Ísafoldar árið 2017.

Myndirnar með fréttinni eru teknar í mars við Ísafold þegar íbúar og gestir hlýddu á söng í samkomubanninu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV