Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Endurmátu heildaraflann vegna villu í útreikningum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Hafrannsóknastofnun hefur hækkað ráðlagðan heildarafla grásleppu. Villa kom fram í útreikningum stofnunarinnar. Enn eru hrognaframleiðendur og Hafró ósammála um hversu mikið af óslægðri grásleppu þurfi til þess að fylla eina tunnu.

Hafrannsóknastofnun hefur hækkað ráðlagðan heildarafla á grásleppuvertíðinni á árinu upp í 5200 tonn, en það er hækkun um tæp 600 tonn frá fyrri ráðgjöf, eða um 12%.

Umframveiðar fá vottun

Þegar hefur verið veitt umfram ráðlagðan heildarafla en Axel Helgason grásleppukarl og fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda segir framúrkeyrsluna í raun núllast út núna - „það er að segja að við verðum ekki yfir ráðgjöf og það gagnast við að endurheimta vottunina á grásleppunni“. 

Að öðru leyti muni breytingarnar ekki breyta miklu fyrir sjómenn á yfirstandandi vertíð. Aflinn hafi staðið í 4700 tonnum þegar veiðar voru stöðvaðar, við það bætist veiðar á Breiðafirði sem séu komnar í rúm 300 tonn. Það séu því einungis um 100 tonn sem standi eftir og hann efast um að ráðherra muni heimila veiðar á ný til að ná þeim. 

Vitlausir útreikningar

Axel segir að í kjölfar mikillar gagnrýni á veiðiráðgjöfina í vor, eftir að sjávarútvegsráðherra stöðvaði grásleppuveiðar nær fyrirvaralaust, hafi komið í ljós villa í útreikningum Hafrannsóknastofnunar á nýtingarhlutfalli grásleppu. Hafrannsóknastofnun endurreiknaði því hversu mikið af óslægðri grásleppu þurfi til þess að fylla tunnu af hrognum og endurmat veiðiráðgjöfina í kjölfarið.

Enn ber þó mikið í milli hjá Hafró og hrognaframleiðendum en viðmiðunartalan hækkaði úr 427 kg í um það bil 470 kg „en samkvæmt öllum sem verka grásleppu hér á landi þá eru að meðaltali um 530 kg sem þarf fyrir hverja tunnu og hver 10 kg þarna skipta gríðarlegu máli þegar kemur að því að nota þessar tölur inn í ráðgjöfina,“ segir Axel. 

Segir villuna áfram til staðar

Það sé gagnrýnivert að Hafrannsóknastofnun hafi fundið nýtingarhlutfallið út með því að nýta gamlar afladagbækur, sem innihaldi hvorki nothæfar né nákvæmar upplýsingar til þess.  Þó þessi leiðrétting hafi komið fram sé villan enn til staðar: „Villan er enn sú að þeir eru að nota rangar upplýsingar til þess að finna nýtingarhlutfall á grásleppu, það er að segja, tölur úr afladagbókum,“ segir Axel.