„Eitthvað sagði mér að ég yrði að koma heim“

Mynd: Unnur Magna / Aðsent

„Eitthvað sagði mér að ég yrði að koma heim“

16.06.2020 - 09:46

Höfundar

Katrín Huld Bjarnadóttir var í Bandaríkjunum þegar hún heyrði rödd hvísla því að sér að hún ætti að flýta heimferð. Hún hlýddi innsæinu sem var mikið happ því skömmu síðar veiktust báðir foreldrar hennar alvarlega. Katrín rekur Blómasetrið í Borgarnesi ásamt foreldrum sínum, Svövu og Unnsteini.

Blómasetrið - Kaffi kyrrð er í senn blómabúð, fjölskyldurekin heimagisting, verslun og kaffihús á Borgarnesi sem er staðsett í voldugu húsi á hæð með útsýni yfir Hafnarfjallið, fuglalíf og kletta. Setrið reka hjónin Svava Víglundsdóttir, Unnsteinn Arason og dóttir þeirra Katrín Huld Bjarnadóttir.

Gleymdi sér á konudaginn og keypti heila blómabúð

Fjölskyldan byrjaði í blómabransanum þegar Unnsteinn fékk samviskubit yfir að gleyma sér á konudaginn og keypti blómabúðina Blómaborg fyrir konuna sína. . „Þá gleymdi Unnsteinn að gefa mér blóm  svo hann keypti heila blómabúð handa mér,“ segir Svava. Hún var á gangi um Borgarnes einn góðan veðurdag nokkrum árum síðar þegar hún rak augun í hús sem henni fannst hún verða að flytja reksturinn í. „Mér fannst þetta hús alltaf svo fallegt svo ég fór að grafast fyrir um hvernig hægt væri að eignast það,“ segir hún.

Hjónin keyptu húsið og hófu rekstur blóma- og gjafavöruverslunar en sáu fljótlega að húsið býður upp á fleiri möguleika svo þau innréttuðu kaffihúsið líka. „Mér fannst þetta hús svo töfrandi og bjóða upp á ævintýri. Það heillaði mig, það voru straumar sem drógu mig hingað inn. Mér er fullkomlega ljóst að á þessum hól erum við með álfa og huldubyggð sem við finnum vel fyrir,“ segir Svava og Unnsteinn tekur undir að húsið sé töfrandi.

Það hefur mætt mikið á Unnsteini í smíðavinnunni við að standsetja kaffihúsið og endurinnrétta húsið en vinnan hefur sannarlega skilað sér og hann segist njóta sín vel í smíðavinnu. „Þetta hefur verið óhemjuvinna og svona er þetta búið að ganga.“

„Held að Taíland hafi beðið eftir mér“

Svava segir að hönnunin á kaffihúsinu sé innblásin af örlagaríkri utanlandsferð sem hún fór í tvítug með fjölskylduvini sem var þrjátíu árum eldri. Vinur foreldra hennar var í kvöldkaffi heima hjá þeim þegar hann stakk upp á að þau héldu upp á stórafmæli sín með ferðalagi. „Hann segir við mig: Svava. Þú verður tvítug í ár og ég verð fimmtugur. Viltu koma með mér til Taílands?“

Þau fóru víða á ferðalaginu en Svava segir að dvölin í Taílandi hafi haft sérstaklega mikil áhrif á sig. „Þarna sá ég mestu fátækt sem ég hef séð og mesta ríkidæmi en líka mestu gleði. Það fallegasta sem fólk hafði var þakklætið, gleðin, kærleikurinn og ástin. Ég held þessi staður hafi beðið eftir mér.“

Byrjaði fjögurra ára að aðstoða á hótelinu

Katrín var aðeins fjögurra ára þegar hún byrjaði að hjálpa móður sinni á Hótel Tanga, sem Svava rak. „Hún var fjögurra ára þegar hún fór fyrst með morgunmatinn í bláum kjól. Hún kom með seríóspakka í annarri og mjólk í hinni og sagði: Mamma er sofandi, gjörið svo vel,“ rifjar Svava upp. „Hún hefur fylgt mér. Það hefur oft tekið á hjá henni en við erum mjög nánar.“

Stuðandi að vera þráspurð hvernig hægt væri að vera alltaf með mömmu

Þær hafa unnið saman nánast allar götur síðan og Katrínu hefur ekki langað að hætta, nema í örskamma stund árið 2017. Margir höfðu tjáð henni furðu sína á því að hún væri enn að vinna með móður sinni og það var farið að stuða Katrínu sem ákvað eftir nokkra umhugsun að prófa eitthvað annað. Hún lagði land undir fót eins og móðir hennar forðum og fór til Bandaríkjanna. Örlögin gripu óvænt í taumana og hún sneri heim fyrr en hún hafði ætlað sér. „Það var eitthvað innra með mér sem sagði: Þú verður að koma heim. Ég kom heim 5. desember sem var gott því viku síðar var mamma við dauðans dyr á sjúkrahúsi,“ segir Katrín sem telur það enga tilviljun að hún hafi verið stödd á landinu þegar móðir hennar veiktist.

Skeikaði tveimur tímum að það hefði verið um seinan

„Ég held við séum öll með rödd innra með okkur, þetta innsæi. Oft og tíðum hefur hún hljóðnað, í öllu þessu áreiti þarf maður að vanda sig að hlusta á hana og heyra í henni, en ég var í í þannig umhverfi að ég heyrði rödd segja við mig: Þú verður að koma heim. Ég held það sé þessi nána tenging sem við höfum við mamma.“

Svava man þetta glögglega. Hún hafði hvatt dóttur sína til að vera lengur úti og ekkert vera að drífa sig heim. Hún segist þó fegin því að Katrín hafi hlýtt innsæinu. „Hún hafði hringt í mig nokkrum dögum áður og sagt: Mamma ég er að hugsa um að koma heim fyrir jól,“ rifjar Svava upp. „Ég segi þú þarft ekkert að koma heim. Kláraðu bara ferðina þína og við skulum svo sjá til En hún kemur og ég veikist svona heiftarlega og var, eins hún segir, við dauðans dyr. Ef ég hefði komið á sjúkrahúsið tveimur tímum seinna þá væri ég ekki hér.“

Það var skammt stórra högga á milli hjá fjölskyldunni því strax upp úr áramótum greinist Unnsteinn með bráðahvítblæði, missir málið, alla sína starfsgetu og í raun allan mátt. Svava var enn að jafna sig á sínum veikindum svo það kom í Katrínar hlut að sinna Blómasetrinu. „Hún var eins og engill af himni sendur,“ segir Svava.

Katrín segist að lokum vona að þrátt fyrir fækkun ferðamanna verði nóg að gera í Blómasetrinu í sumar enda viti það allir sem hafa tekið vinstri beygjuna í Borgarnesi að það sé afskaplega fallegur bær. „Hann hefur upp á svo mikið að bjóða. Söfn, veitingastaði og fuglalíf,“ segir hún.

Gígja Hólmgeirsdóttir ræddi við fjölskylduna á Blómasetrinu í Sögum af landi á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Þetta áfall breytti mér“

Airwaves

„Það var of snemmt að byrja að drekka 11 ára“