Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Arnfríður leyst úr embætti og skipuð á ný

Mynd með færslu
 Mynd: Dómsmálaráðuneytið
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að skipa Arnfríði Einarsdóttur í embætti dómara við Landsrétt frá og með næstu mánaðamótum. Arnfríður er ein fjögurra dómara sem styr stóð um þar sem Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, tók þau fram fyrir aðra umsækjendur sem dómnefnd um hæfi umsækjenda mat hæfari. Dómararnir fjórir hættu dómstörfum í mars í fyrra eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi gegn íslenska ríkinu í máli manns sem Landsréttur sakfelldi.

Þetta er því í annað sinn sem Arnfríður er skipuð dómari við Landsrétt. Fram kemur á vef dómsmálaráðuneytisins að við skipun hennar losni embætti eins dómara í Landsrétti og að það verði auglýst laust til umsóknar innan tíðar. Það er embættið sem Arnfríður var skipuð í 2017 og gegndi frá því í ársbyrjun 2018. Arnfríður var nú skipuð í stöðu landsréttardómara sem Ásmundur Helgason gegndi áður. Hann var eins og Arnfríður einn fjögurra sem ekki gátu dæmt í málum eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í mars í fyrra. Hann var skipaður í aðra stöðu dómara við Landsrétt 1. apríl.

Fimm sóttu um stöðuna. Auk Arnfríðar voru það Ástráður Haraldsson héraðsdómari, Helgi Sigurðsson héraðsdómari, Ragnheiður Bragadóttir landsréttardómari og Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari.

Frá vinstri: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Ingveldur Einarsdóttir, Kristbjörg Stephensen, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Oddný Mjöll Arnardóttir, Jón Finnbjörnsson, Aðalsteinn E. Jónasson, Davíð
Dómarar við Landsrétt. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lengst til vinstri á myndinni. Mynd: Dómsmálaráðuneytið
Upphaflegu landsréttardómararnir.

Dómnefnd sem lagði mat á hæfni umsækjenda komst að þeirri niðurstöðu að Arnfríður Einarsdóttir og Ástráður Haraldsson stæðu fremst meðal umsækjenda á grundvelli matsþátta og séu ekki efni til að gera upp á milli þeirra. Munurinn á milli umsækjendanna fimm sé samt ekki svo afgerandi að það ráði úrslitum eitt og sér. „Vegna þess að svo háttar til skiptir enn meira máli en ella hver er færni umsækjenda til að nýta þá lögfræðiþekkingu, sem þau búa yfir, við að leysa úr dómsmálum á skipulegan og rökstuddan hátt,“ segir nefndin og bætir við í beinu framhaldi: „Eins og áður greinir er það mat dómnefndar, sbr. kafla 5.9.2., að Arnfríður Einarsdóttir hafi sýnt að hún sé færust umsækjenda til að ráða ágreiningsmálum til lykta á þann hátt sem mælt er fyrir um í réttarfarslögum. Næst henni í þeim matshluta kemur Ragnheiður Bragadóttir.“

Mynd með færslu
Ástráður Haraldsson, héraðsdómari. Mynd: RÚV
Ástráður og Arnfríður voru metin hæfust samkvæmt matsþáttum en meiri dómarareynsla Arnfríðar réði niðurstöðu dómnefndar.

Niðurstaða dómnefndar

Helgi Sigurðsson og Ragnheiður Snorradóttir þóttu standa fremst hvað menntun varðar, því næst Arnfríður, þá Ragnheiður Bragadóttir og loks Ástráður Haraldsson.

Í umsögn dómnefndar segir að bæði Arnfríður og Ragnheiður Bragadóttir hafi starfað við Landsrétt „en reynsla af störfum við þann dómstól hlýtur eðli máls samkvæmt að vega þyngra en reynsla af dómstörfum í héraði“. Þær eru metnar hæfastar þegar litið er til dómarastarfa og vísað til langs og fjölbreytts dómaraferlis. Arnfríður hefur verið dómari í sautján ár og Ragnheiður Bragadóttir í sextán ár. Næst kom Ragnheiður Snorradóttir í matinu með sjö ára dómarareynslu og síðastir þeir Ástráður og Helgi.

Ástráður og Helgi voru metnir með mesta reynslu af lögmanns- og málflutningsstörfum, því næst Ragnheiður Bragadóttir og á eftir henni Ragnheiður Snorradóttir. Arnfríður hafði ein umsækjenda ekki fengist við lögmanns- eða málflutningsstörf.

Ragnheiður Snorradóttir var metin með mesta reynslu af stjórnsýslustörfum, á eftir henni kom Arnfríður, því næst Ástráður, síðan Ragnheiður Bragadóttir og loks Helgi.

Ástráður skoraði hæst fyrir kennslu og önnur akademísk störf. Á eftir honum voru þau Helgi og Ragnheiður Snorradóttir. Ragnheiður Bragadóttir var fjórða í mati á þeim þætti og Arnfríður síðust.

Ragnheiður Snorradóttir var efst á lista í mati á útgefnum greinum, bókum og ritstjórn. Næst kom Ástráður og svo Helgi. Ragnheiður Bragadóttir og Arnfríður komust þar ekki á blað.

Helgi var metinn með mesta stjórnunarreynslu og næstur honum kom Ástráður. Því næst kom Arnfríður, á eftir henni Ragnheiður Bragadóttir og loks Ragnheiður Snorradóttir. Tvær síðast nefndu voru með tiltölulega litla reynslu miðað við þrjú fyrst nefndu.

Arnfríður þótti standa fremst þegar litið var til annarra starfa sem gætu nýst við dómarastörf, ekki síst vegna sextán ára setu í nefnd um dómsmál á vegum Evrópuráðsins. Næstir komu Ástráður og Helgi. Síðan Ragnheiður Snorradóttir og loks Ragnheiður Bragadóttir.

Allir umsækjendur voru metnir hæfir þegar litið var til almennrar starfshæfni og andlegs atgervis. Arnfríður og Ragnheiður Bragadóttir þóttu standa fremst í því að hafa einkamála- og sakamálaréttarfar á valdi sínu. Dómnefndin mat Arnfríði færasta umsækjenda til að semja dóma og vísaði þar til þess að dómar og úrskurðir sem hún hefði kveðið upp væru greinargóðir og eftir þörfum ítarlegir. Ragnheiður Bragadóttir kom næst í því mati. Aðrir umsækjendur þóttu standa þeim ótvírætt að baki.

Eiríkur Tómasson var formaður dómnefndar. Með honum í nefndinni sátu Halldór Halldórsson, Kristín Benediktsdóttir, Óskar Sigurðsson og Sigríður Þorgeirsdóttir.