Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aldrei borist fleiri umsóknir um nám í HÍ

16.06.2020 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Veruleg aukning er  í fjölda þeirra sem vilja í nám í hjúkrun, leikskólakennarafræðum og tæknifræði í Háskóla Íslands. Um tvöfalt fleiri sóttu um að komast í tvær síðastnefndu greinarnar næsta haust og umsóknum í hjúkrun fjölgaði um 77%.

Hátt í tólfþúsund umsóknir bárust Háskóla Íslands um grunn og framhaldsnám fyrir næsta skólaár. Umsóknirnar hafa aldrei verið fleiri í sögu skólans. Til samanburðar má geta þess að 13.300 stunda þar nú nám og fer umsóknafjöldinn því nærri því að vera tvöföldun á nemendafjölda.

Umsóknir í grunnnám voru 6.720 og er það tæplega 21% aukning milli ára. Umsóknum í framhaldsnám fjölgaði þó hlutfallslega mun meira eða um 50%.

Þegar horft er til stakra greina bárust flestar umsóknir vegna náms í sálfræði og eru þær nú rúmlega þriðjungi fleiri en í fyrra.

Hlutfallsleg aukning er þó mest í grunnnámi í leikskólakennarafræðum og tæknifræði þar sem hún nánast tvöfaldast og í hjúkrun, þar sem 77% fleiri sóttu um.