Áhyggjur af lélegri nýliðun margra fiskistofna

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Hafrannsóknastofnun hefur miklar áhyggjur af lélegri nýliðun margra fiskveiðistofnum undanfarin ár og leggur því almennt til lægra aflamark. Stofnunin kynnti í morgun úttekt á ástandi helstu nytjastofna og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. 

Leggur Hafrannsóknastofnun til 6% lækkun á aflamarki þorsks, sem fer við það úr 272.593 tonnum í  256.593 tonn. Helsta ástæða lækkunar ráðgjafar er lækkun í stofnmælingum botnfiska, en lækkun hefur verið í vísitölu stofnmælinga hjá þorski í vorralli sl. þrjú ár og nú virðist vera svipuð þróun í haustrallinu.

Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri á Botnsjávarsviði , segir  þetta valda sérfræðingum stofnunarinnar nokkrum heilabrotum. Þá vekur það athygli að árið 2020 vantar töluvert af milliþorski, þ.e. þorski á stærðarbilinu 35-80 sm í mælinguna. „Það er ekki skýrt af hverju það stafar,“ segir hann. „En við erum mjög spennt að sjá hvað kemur út úr haustrallinu.“

Hlutfall eldri  fisks hefur þá aukist og er nú stærri hluti af aflanum en var. „Við sjáum mest af fiski sem er á bilinu þriggja til sjö eða átta ára. Fyrir 2010 mældist lítið af fisk í eldri flokkum, en það hefur breyst og er nú talsvert stærra hlutfall aflans eldri fiskur. Í kringum tíunda áratug síðustu aldar var hlutfallið í kringum 10-15%, en er í dag um 40%.

Aflamark ýsu verður 45.389 tonn og er það 9% hækkun frá síðasta fiskveiðiári. Er ástæða hækkunarinnar bættar nýliðunarhorfur. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn ýsu stækki á næstu tveimur árum, en eftir það er líklegast að hann standi í stað. 

Aflamark ufsa verður 78.574 tonn, sem er 2% minna en á síðasta ári. 

41% lækkun á aflamarki keilu

Stofn íslensku sumargotssíldarinnar hefur minnkað hratt undanfarin ár vegna lítillar nýliðunar og frumdýrasýkingar í stofninum. Hins vegar eru horfur á að nýliðun fari nú batnandi og  er því lagt  til að aflamarkið verði 35.490, sem er 3% hærra en á yfirstandandi fiskveiðiári. 

Lagt er til að aflamark gullkarfa verði lækkað um 12% og keilu um 41%, enda hefur verið verulegt ofmat á Keilustofninum undanfarin ár.

Hlýri er þó sú tegund sem Hafrannsóknastofnun hefur mestar áhyggjur af. Segir Guðmundur ástæðu til að telja hlýrastofnin vera kominn undir varúðarmörk og að nýliðunarbrestur sé viðvarandi. Því er lagt til að afli hlýra fari ekki yfir 314 tonn, sem er 12% minna en í fyrra. Þá leggur stofnunin til að heimilt verði að sleppa hlýra sem er umfram aflamark. Hlýrin þoli súrefnisskort betur en aðrar tegundir og með þess sé vonast til að staða stofnins batni. „Annars verður að leggja til veiðibann,“ segir Guðmundur.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi