Verslanir opnaðar á Englandi í dag

15.06.2020 - 04:32
Svartur leigubíll og rauðir double-decker strætisvagnar í London.
 Mynd: Michael & Christa Richert - RGBStock
Þúsundir verslana og skemmtigarða á Englandi munu opna dyr sínar og hlið fyrir viðskiptavinum í dag í fyrsta sinn síðan í lok mars.

Um þriggja mánaða skeið hefur aðeins verið heimilt að selja brýnustu nauðsynjar í Bretlandi.

Ríkisstjórn Borisar Johnsons hefur legið talsvert undir ámæli fyrir hvernig staðið hefur verið að verki í faraldrinum. Nú hefur verið lögð fram áætlun um afléttingu samkomubanns í skrefum.

Verslanir og bænahús verða opnuð

Allt stefnir í að sú ríflega ein milljón sem starfar í verslunum á Bretlandseyjum geti snúið aftur til vinnu sinnar.

Útimarkaðir og bílasölur hófu viðskipti í júníbyrjun auk þess sem yngstu börnin fengu að hverfa aftur í skólastofur sínar. Og nú bætist enn frekar við.

Meðal þeirra sölubúða sem verða opnaðar í dag má nefna bóka- og raftækjaverslanir. Bænahús verða opnuð auk dýragarða og bílabíóa.

Verslanir á Norður Írlandi voru opnaðar á föstudag en ekki liggur fyrir hvenær opnað verður í Skotlandi og Wales.

Fara ber mjög varlega

Almenningi ber að fylgja fjarlægðareglum, tveggja metra reglunni, og sömuleiðis er fólki ráðlagt að hylja vit sín með grímum eða treflum innandyra.

Óheimilt verður að nota almenningssamgöngur án þess háttar varnarbúnaðar.

Krár og veitingahús fá ekki leyfi til að hefja starfsemi að nýju fyrr en í fyrsta lagi 4. júlí næstkomandi. 

Hvað um framhaldið?

Bretland hefur orðið mjög illa úti í faraldrinum. Í síðustu viku lá fyrir að yfir 50 þúsund manns hefðu látist af völdum hans.

Allt stefnir í að samdráttur í efnahagslífinu verði yfir 11% á þessu ári vegna Covid-19. Því er nauðsynlegt fyrir Breta að koma hjólum efnahagslífsins af stað en Johnson forsætisráðherra vill fara varlega.

Allhávær krafa er uppi um slökun á fjarlægðartakmörkunum en ríkisstjórnin hyggst leggja mat á hvort slíkt verði mögulegt í ljósi reynslu næstu daga eða vikna.

Boris Johnson segist ekki vilja stefna þeim árangri sem þó hefur náðst í tvísýnu, með því að fara of geyst.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi