Þoka í Færeyjum hamlar sýnatöku í Norrænu

15.06.2020 - 09:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Rúnar Snær Reynisson - Tollvörður á Seyðisfirði
Útlit er fyrir að ekkert verði af sýnatöku um borð í Norrænu áður en hún kemur til hafnar á Seyðisfirði á morgun þriðjudag, vegna þess að það er þoka í Færeyjum.

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF átti að flytja teymi sýnatökufólks til Færeyja í dag og fara um borð í Norrænu áður en hún leggur af stað til Íslands frá Færeyjum. Til stóð að ljúka sýnatökunni áður en ferjan kæmi til Seyðisfjarðar með farþega frá útlöndum.

Sóttvarnarreglum og samkomubanni var breytt í dag og nú getur fólk komið frá útlöndum og sloppið við sóttkví ef það er skimað við landamærin. Lang flestir koma til Íslands um Keflavíkurflugvöll. Landamærin eru þó víðar, eins og á Seyðisfirði þar sem Norræna kemur til hafnar eftir siglingu frá Danmörku með viðkomu í Færeyjum.

Landhelgisgæslan átti að flytja þrjá heilbrigðisstarfsmenn frá Reykjavík og koma við á Egilsstöðum og sækja fjóra heilbrigðisstarfsmenn til viðbótar áður en flogið yrði til Færeyja.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við fréttastofu að ekki sé enn öll von úti um að hægt verði að fljúga en ef brottför tefst of mikið missi þyrlan af ferjunni í Færeyjum. Samkvæmt áætlun leggur Norræna af stað klukkan 12 frá Þórshöfn í Færeyjum og á að koma til hafnar í Seyðisfirði klukkan níu í fyrramálið.

Uppfært klukkan 10:24 - Missagt var í upphaflegri útgáfu fréttarinnar að TF-SIF væri þyrla Landhelgisgæslunnar. Hið rétta er að TF-SIF er flugvél gæslunnar.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi