Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tæplega helmingi fleiri kosið utan kjörfundar nú

15.06.2020 - 15:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
10.800 hafa nú kosið utan kjörfundar á höfuðborgarsvæðinu og er það tæplega helmingi fleiri en á sama tíma fyrir fjórum árum þegar 5.258 manns höfðu greitt atkvæði. Alls hafa 13.850 greitt atkvæði utan kjörfundar á landinu öllu. 

Bergþóra Sigmundsdóttir, kjörstjóri hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, segir kjörsóknina nú greinilega vera meiri en hún var fyrir forsetakosningarnar 2016. Sú staða kunni þó vel að breytast fyrir kjördag.

„Í dag eru 672 búnir að kjósa og sama degi fyrir fjórum árum, mánudaginn 13. maí kusu 598,“ segir hún. 

Bergþóra segist ekki vita hverju þessi aukna kjörsókn sæti. „Mögulega er þetta af því að við byrjuðum fyrr,“ segir hún. Staðsetning atkvæðagreiðslunnar í Smáralind kunni líka að hafa sitt að segja, enda margir á ferðinni í verslunarmiðstöðinni. Eins geti verið að fleiri séu óvissir um hvort  þeir verði heima á kjördag. Loks kunni kórónaveirufaraldurinn að hafa sitt að segja.  

„Við gætum vel að tveggja metra reglunni og hreinsum alla penna á milli þess sem kosið er. Fólk á að fá hreina penna,“ segir Bergþóra.  

Töluvert annríki hefur verið við atkvæðagreiðslu í Smáralind undanfarna daga og var biðröðin sem myndaðist í gær 20 mínútna löng er lengst var. Frá og með deginum í dag er hægt að kjósa utan kjörfundar á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Á fyrstu hæð í Smáralind nálægt inngangi í norðausturhluta, líkt og verið hefur og svo hefur bæst við kjörstaður miðsvæðis í Smáralind nálægt þjónustuborðinu og svo undir stúkunni á Laugardalsvelli í húsnæði KSÍ.   

Bergþóra segir ástæðu þess að hægt er að kjósa á tveimur stöðum í Smáralind vera þá að ekki sé hægt að hafa jafnmarga kjörklefa á sama stað og venjulega vegna tveggja metra reglunnar. Átta kjörklefar eru á neðri hæðinni og 10 á þeirri efri. Það dugar hins vegar ekki til þegar nálgast kjördag. „Við myndum ekki anna þessu öðruvísi,“ útskýrir hún og segir kjörklefana oft vera 24.