Snjódrífur gengu sig upp að hnjám fyrir Lífskraft

15.06.2020 - 19:30
Stærsti kvennaleiðangur sem þverað hefur Vatnajökul kom til byggða í dag eftir níu daga göngu. Sumar hlutu slæm sár á fótum en segja það vel þess virði. Markmiðið er að hvetja og bæta aðstöðu kvenna sem ganga í gegnum krabbamein.

Við hittum á Snjódrífurnar þar sem þær voru að fá sér í svanginn á Egilsstöðum vel útiteknar og veðurbarðar. Þessi ellefu kvenna hópur gekk 160 kílómetra leið - þar af 150 kílómetra á jökli þar sem þær gistu 7 nætur.

„Það reynir á úthald bæði líkamlegt og andlegt og maður þarf að vera klár í daginn þegar maður vaknar. Stundum er maður þreyttur og stundum er eitthvað að hrjá mann. Maður getur verið með hælsæri. Svo í svona stórum leiðangri eins og við vorum í þá reynir líka á samvinnu og samheldni leiðangursmanna,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari og leiðangursstjóri Snjódrífanna. Þær lögðu upp frá Jökulheimum og skíðuð upp í Grímsvötn en þurftu að bíða af sér veður hluta úr degi. Frá Grímsvötnum skíðuðu þær í norðaustur og komu niður hjá Goðahnjúkasvæðinu og enduð í Geldingafelli í gær.

Reyndi að hugsa ekki um sársaukann

„Við erum bara búnar að ganga í hvað, níu daga, 10-12 tíma á dag og þá gerist bara svona. Með brunasár á báðum hælum og neglurnar farnar tvær og sýking komin í tær. Ég sem sagt gekk og reyndi að hugsa ekki um sársaukann af því að málefnið er svo rosalega gott. Við erum að ganga fyrir tvö styrktarfélög, við erum að styðja Kraft og Líf og fyrir allt þetta fólk sem hefur þurft að fá stuðning frá þessum félögum, eins og hún Sirrý vinkona okkar, Heiða, Anna Sigga og Hulda í hópnum,“ segir Soffía Sigurgeirsdóttir snjódrífa. Sirrý stofnaði félagið Lífskraft um verkefnið og einnig facebook hópinn Minn Lífskraftur

„Ég er enn þá hér“

„Við erum búnar að fá fullt af myndum og skilaboðum frá hópum sem eru búnar að vera að hlaupa og ganga og hjóla og synda og við erum að rifna úr stolti yfir þessum mikla stuðningi og öllum þessu kraftmiklu konum um allt land.  Ég hef sem sagt hef greinst tvisvar sinnum með krabbamein og í ár á ég fimm ára afmæli frá því að ég greindist í seinna skiptið. Þessi ganga hún er því til heiðurs að ég er enn þá hér, fimm árum eftir seinni greiningu. Hún er líka til að sýna fram á hvað hægt er að gera með því að taka eitt skref í einu,“ segir Sirrý, Guðrún Sigríður Ágústsdóttir snjódrífa. 

Nánar upplýsingar um Lífskraft má nálgast á www.lifskraftur.is en á næsta ári ætlar Sirrý með 100 konum á Hvannadalshnúk.  

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi