Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skipta Háskólabíó upp — „skemmtanahungur“ í fólki

Seinni undankeppni Söngvakeppninnar 2017 í Háskólabíó
 Mynd:

Skipta Háskólabíó upp — „skemmtanahungur“ í fólki

15.06.2020 - 13:19

Höfundar

„Við skiptum Háskólabíó í tvennt. Þannig er hægt að hafa undir 500 manns í hverju svæði fyrir sig. Þannig þetta skiptir miklu máli fyrir okkur,“ segir Atli Rúnar Hermannsson, eigandi ARG viðburða um tilslakanir á samkomubanni sem taka gildi frá og með deginum í dag.

Fjöldatakmarkanir hafa verið rýmkaðar úr 200 í 500. „Þessir tveir hópar skarast aldrei á neinum tímapunkti. Það eru tveir inngangar, tveir barir, tvö klósett og svo framvegis,“ segir Atli Rúnar. Þessi tilhögun er gerð í samráði við landlækni og heilbrigðisráðuneytið. Barir, skemmti- og veitingastaðir og spilasalir þurfa áfram að loka klukkan ellefu á kvöldin, þar sem sérstök smithætta er talin fylgja þessum stöðum. Gætt verður að því að tónleikunum verði lokið klukkan ellefu. „Það er komið mikið skemmtanahungur í landann. Fólk er búið að vera inni og horfa á Helga Björns í tíu vikur. Eina vesenið er að við megum ekki vera lengur en til klukkan ellefu og við þurftum því að flýta föstudagstónleikunum. Sumir tóku því ekki vel, skiljanlega.“

Hvaða áhrif hefur samkomubannið haft á ykkur? „Þetta er búið að vera alveg glatað. Við höfum ekki getað unnið eða skapað okkur tekjur í síðustu mánuði. Það er bara búið að vera algjört frost. En svo bíðum við bara og vonum að þetta verði komið í þúsund manns með haustinu og þá erum við bara á fullu að halda tónleika,“ segir Atli Rúnar jafnframt.

Sóttvarnalæknir hyggst endurskoða tilslakanir á samkomubanni eftir þrjár vikur. Frá og með deginum í dag verða engar takmarkanir á fjölda fólks í sundlaugum og á líkamsræktarstöðvum. Tveggja metra reglan er áfram valkvæð.

Tengdar fréttir

Innlent

Hámarksfjöldi á samkomum kominn upp í 500 manns

Vestmannaeyjabær

Flókið að halda pæjumót í samkomubanni

Kvikmyndir

Fyrsta bíófrumsýningin eftir samkomubann

Innlent

Samkomur mega telja 500 manns frá 15. júní