Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Öll vinna miðast að því að semja fyrir boðað verkfall

15.06.2020 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Samningafundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins lauk nú á fimmta tímanum. Fundurinn stóð í þrjár klukkustundir. „Þetta var ágætur fundur. Samninganefndirnar komu ágætlega undirbúnar og það var virkt og gott samtal á fundinum. En þetta eru ákaflega snúnar samningaviðræður,“ segir Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari.

Samninganefndirnar hafa viku til að semja, annars hefst ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga á mánudagsmorgun, 22. júní. En næst að semja fyrir þann tíma? „Það er allt það sem við stefnum að. Öll okkar vinna miðast að því,“ segir hann jafnframt. Annar sáttafundur hefur verið boðaður á fimmtudagsmorgun.

Formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sagði fyrir helgi að launamál hjúkrunarfræðinga hefðu ekki verið rædd á síðasta fundi, heldur atriði samningsins sem minni ágreiningur er um. Var farið yfir launaliðinn í dag? „Við vorum að ræða ýmis mál. Ég vil ekki fara nánar ofan í það hvaða einstöku mál voru rædd á fundinum,“ segir Aðalsteinn. Hjúkrunarfræðingar krefjast hærri grunnlauna - sem samninganefnd ríkisins hefur sagt að sé umfram lífskjarasamninginn.