Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ný stjórn á Írlandi

15.06.2020 - 16:24
Micheál Martin, leiðtogi Fianna Fáil á Írlandi.
 Mynd: RTE - RTE, Írska ríkisútvarpið
Micheál Martin, leiðtogi Fianna Fáil, stærsta stjórnmálaflokks Írlands, verður forsætisráðherra, samkvæmt samkomulagi sem tókst í dag um myndun nýrrar ríkisstjórnar á Írlandi. Fjórir mánuðir eru liðnir frá þingkosningum sem flæktu mjög stöðuna í írskum stjórnmálum. Stjórnarmyndunarviðræður voru flóknar og erfiðar og töfðust vegna COVID-19.

Þriggja flokka stjórn

Þrír flokkar eiga aðild að nýju stjórninni, Fianna Fáil, Fine Gael og Græningjar. Micheál Martin, leiðtogi Fianna Fáil, tekur við sem taoiseach, eða forsætisráðherra og samkvæmt samkomulaginu gegnir hann embættinu til ársloka 2022, en þá er gert ráð fyrir að Leo Varadkar, leiðtogi Fine Gael, taki aftur við. Varadkar hefur veitt stjórnini í Dylfinni forystu síðastliðin þrjú ár.

Höfuðandstæðingar taka höndum saman

Fianna Fáil og Fine Gael hafa verið höfuðandstæðingar í írskum stjórnmálum þó að báðir teljist mið-hægriflokkar. Stjórnarmyndunarviðræður voru erfiðar og drógust á langinn vegna farsóttarinnar en samkomulag náðist um heldinga og var kynnt í morgun.

Micheál Martin, verðandi forsætisráðherra, sem sagði stefnu nýju stjórnarinnar leiða til umtalsverðra breytinga á mörgum sviðum á Írlandi. Leo Varadkar lýsti sömuleiðis ánægju með málefnasamninginn, nú þyrfti að hrinda honum í framkvæmd.

Búist við samþykkt flokkanna þriggja fyrir lok vikunnar.

Þingflokkar og almennir félagar flokkanna þriggja þurfa að samþykkja málefnasamninginn áður en ný stjórn tekur við og búist er við að það verði fyrir lok vikunnar. 

160 sæti eru írska þinginu, Dáil Éireann. Fianna Fáil fékk 38 sæti í þingkosningunum.  Fine Gael fékk 35 sæti og Græningjar fengu 12 þingsæti. Saman hafa flokkarnir því meirihluta á þingi.

Sinn Féin, sem er vinstra megin við miðju írskra stjórnmála, fékk 37 þingsæti í kosningunum í febrúar og verður stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn.