Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Nærri 20% atvinnuleysi á Suðurnesjum

15.06.2020 - 17:02
Mynd:  / 
Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hér á landi í maí var nærri 25%. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er nú um 40%. Atvinnuleysi á Suðurnesjum dróst saman um 5 prósentustig og mælist nú tæp 20%.

Þessar tölur segja þó ekki alla söguna. Heildaratvinnuleysistölur sem Vinnumálastofnun birtir ná annars vegar til þeirra eru alveg atvinnulausir og hins vegar þeirra sem eru á hlutabótum. Sá sem hefur verið færður niður í 25% starfshlutfall og fær hlutabætur er 75% atvinnulaus ef svo má að orði komast. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar lækkaði atvinnuleysi talsvert í síðasta mánuði. Var í apríl 17,8% en mældist í maí 13%. Meginskýringin á minna atvinnuleysi er sú að þeim sem fá hlutabætur fækkar ört. Þeim fækkaði úr rúmum 10% í 5,6%. Almennt atvinnuleysi, þeir sem eru án atvinnu, stóð nánast í stað og var um 7,5%. Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir að atvinnuleysi aukist í næsta mánuði og verði líklega yfir 8% fram í september. Þá rennur út uppsagnarfrestur margra þeirra sem sagt var upp í mars og apríl.

„Þetta eru erfiðir mánuðir fram undan og erfitt haust. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Heildaratvinnuleysið hefur verið að lækka og mun væntanlega lækka fram í júlí eða ágúst en gæti aðeins farið upp á við þá,“ segir Karl.

Almennt atvinnuleysi eykst á Suðurnesjum

En Karl bendir á að erfitt sé að spá um framhaldið. Það fari mikið eftir því hvernig ferðaþjónustufyrirtækjum gengur að rétta úr kútnum. Atvinnuleysið er sem fyrr mest á Suðurnesjum. Minnkar í heild úr rúmum 25% í 19,6% sem skýrist af því að þeim fækkar sem eru á hlutabótum. Almennt atvinnuleysi eykst um eitt prósentustig og mældist 12,2% í maí.

„Atvinnuleysið hefur verið erfitt og var orðið erfitt fyrir þetta COVID hrun. Það sem gerðist í maí var að þetta almenna atvinnuleysi jókst um eitt prósentustig. Við gerum ráð fyrir að það verði áfram á þessu róli 12 til 13 prósent næstu mánuði.“

Hlutabótaleiðin að fjara út

Almennt atvinnuleysi hefur síðustu tvo mánuði verið rösk 7% og því er spá að það verið um 7,3% í þessum mánuði. Atvinnuleysi vegna hlutabótaleiðarinnar minnkar hratt. Var yfir 10% í apríl en nú er spáð að það verði í júní rétt tæp 4%. Karl segir að ástæðan sé bæði að fólk er að fara á uppsagnarfrest og sumir að snúa aftur til vinnu, sjúkraþjálfarar, hárgreiðslufólk og fleiri. Hlutabótaleiðin muni fjara út í næsta mánuði.

„En á móti kemur mun þetta almenna atvinnuleysi að öllum líkindum fara nokkuð hækkandi og jafnvel nokkuð mikið.“

Fjórðungur á atvinnuleysisskrá

Atvinnuleysi meðal útlendinga á Íslandi, erlendra ríkisborgara, er talsvert meira en meðaltalið og meðal Íslendinga. Í maí voru 6.300 útlendingar án vinnu og í atvinnuleit. Það svarar til 17,6% atvinnuleysis meðal erlendra ríkisborgara. En þeir eru líka á hlutabótum. Ef því er bætt við nemur atvinnuleysi í þessum hóp nærri 25%. Reyndar var atvinnuleysi meðal útlendinga hér á landi komið í 10% áður en Covid 19 faraldurinn hófst. Í haust var hlutur útlendinga á atvinnuleysisskrá um 40 af hundraði. Hlutfallið lækkaði nokkuð þegar atvinnuleysið jókst almennt. Nú er hlutur erlendra ríkisborgara aftur kominn upp í 40% þegar litið er á almennt atvinnuleysi. 

„Þetta sýnir hvað staða þeirra er erfið. Hún fór hratt versnandi á haustmánuðum 2019 þegar hægðist á fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Útlendingar hafa verið að flytjast til landsins í töluverðum mæli á árunum 2018 og 19 þrátt fyrir að það væri að þrengja að á vinnumarkaði. Síðan hefur verið mjög erfitt fyrir þá að flytjast á brott í þessum ferðatakmörkunum sem hafa verið,“ segir Karl.

Af þeim sem eru atvinnulausir er helmingurinn Pólverjar. Eins og Karl bendir á hefur verið erfitt fyrir útlendinga að fara á heimaslóðir til að leita sér að vinnu. Það er bæði vegna þess að landamæri hafa verið lokuð vegna COVID 19 og líka vegna þess að kannski er enga vinnu að fá í heimalandinu. Hins vegar geta útlendingar hér á landi sem eru í atvinnuleit og sem eru ríkisborgarar á EES-svæðinu leitað að vinnu í öðrum EES-ríkjum. Þeir halda atvinnuleysisbótum hér í þrjá mánuði. Til þess þarf að hafa sérstakt vottorð upp á vasann sem Vinnumálastofnun gefur út. Í maí sóttu 69 manns um að leita að vinnu annars staðar í Evrópu. Langflestir fóru í atvinnuleit til Póllands eða 41. Athygli vekur að í maí komu hingað 4 einstaklingar með vottorð um að leita eftir vinnu hér á landi.