Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mývargur veltur inn úr gluggakistum í Mývatnssveit

15.06.2020 - 13:53
Mynd með færslu
 Mynd: Árni Einarsson - RÚV
Mikið er um bitmý í Mývatnssveit um þessar mundir og þeir sem eru viðkvæmir fyrir bitum ættu að hafa varann á. Heimamaður segist ekki hafa séð svona mikið af mývargi í mörg ár.

Ingólfur Jónasson, bóndi á Helluvaði í Mývatnssveit, segir góðan mælikvarða á magn mývargsins hvort hann velti inn úr gluggakistum. Það hafði hann ekki séð í mörg ár fyrr en nú; „hérna fyrir nokkrum dögum þá fylltist glugginn alveg og hann var kominn inn í miðja stiga, þá er þetta orðið dálítið mikið“.

„Ég sá hérna þetta kvöld sem mest var, það var einn hérna að reka kindur og hann var í bláum galla en gallinn var orðinn svartur, það var alveg þykkt lag á öllum gallanum,“ segir Ingólfur. 

Útbitinn eftir garðslátt

Mývargurinn er ágengur og bítur menn og dýr enda þarfnast hann blóðs til að geta verpt eggjum. Mývetningur sem fréttastofa náði tali af í morgun sagði farir sínar ekki sléttar eftir garðslátt gærdagsins sem skilaði honum fjölmörgum bitum. Annar heimamaður sagði orðið hart á dalnum þegar innfæddir væru farnir að draga fram vargskýlur.

Fljótur að dreifa úr sér

Ingólfur segir varginn fljótan að dreifa úr sér. Þau verði fyrst vör við hann á girðingarstaurum í ánni, strax daginn eftir sé hann kominn út um allt. Hann segir mikið um varg við Reykjahlíð; „því þegar hann var að fljúga hvað mest upp þá var vestanátt og þá dreifist hann miklu meira“.

Bitin geta farið illa í viðkvæma

Heimamenn telur hann líklega marga með mótefni, hann finni til að mynda ekki fyrir bitunum sjálfur enda vanur varginum frá blautu barnsbeini. Bitin geti hins vegar farið mjög illa í óvana, og jafnvel vissara fyrir viðkvæma að halda sig innandyra í dag. Það séu kjöraðstæður fyrir varginn, lítill vindur og sallarigning, þá sé hann hvað grimmastur.