Matt James brýtur blað í sögu The Bachelor

Mynd með færslu
 Mynd: Good Morning Amercia - YouTube

Matt James brýtur blað í sögu The Bachelor

15.06.2020 - 16:54
Raunveruleikaþættirnir The Bachelor eru með lífseigari þáttaröðum sjónvarpssögunnar. Í vor kláraðist tuttugasta og fjórða þáttaröðin og lítið lát er á vinsældum þeirra. Piparsveinn tuttugustu og fimmtu þáttaraðarinnar, Matt James, var kynntur nýlega en hann verður fyrsti svarti piparsveinninn í sögu þáttanna.

Þættirnir ganga, eins og svo margir aðrir raunveruleikaþættir, út á að finna ástina. Einn piparsveinn eða piparmey fær það verkefni í upphafi hverrar þáttaraðar að velja sér einhvern til að giftast úr hópi vongóðra vonbiðla. Vonbiðlarnir fara á stórfengleg stefnumót með piparsveininum eða piparmeynni og reyna að mynda tengsl, koll af kolli eru þátttakendur svo sendir heim þar til aðeins einn er eftirstandandi. 

Þættirnir hafa lengi verið gagnrýndir fyrir lítinn fjölbreytileika en á 18 árum, í tuttugu og fjórum þáttaröðum af The Bachelor og fimmtán þáttaröðum af The Bachelorette, hefur einungis ein manneskja í aðalhlutverki (það er að segja piparsveinninn eða piparmeyin) verið svört, Rachel Lindsay sem var í  aðalhlutverki í þrettándu seríunni af The Bachelorette. 

Áður en tilkynnt var um að James yrði nýjasti piparsveininn tjáði Lindsay sig um skort á fjölbreytileika í þáttunum og sagðist íhuga að rjúfa tengslin við Bachelor-heiminn algjörlega ef ekkert yrði gert. Hún gæti ekki verið tengd þáttunum nema að einhverjar breytingar yrðu gerðar og á þessum tímapunkti væri það einfaldlega vandræðalegt að vera bendluð við þá.

„Í 40 þáttaröðum hefur einn svartur einstaklingur verið í aðalhlutverki. Í Bandaríkjunum hafa 45 forsetar verið við völd og af þeim 45 forsetum hefur einn þeirra verið svartur. Það er næstum líklegra að þú verðir forseti Bandaríkjanna heldur en að þú verðir svart aðalhlutverk í þessum þáttum. Það er klikkað,“ bætti Lindsay við. 

Aðdáendur hafa sömuleiðis lengi kallað eftir fjölbreyttari aðalhlutverkum í þáttunum og nú hafa framleiðendur loksins svarað kallinu en Matt James verður, eins og áður sagði, fyrsti svarti piparsveinn þáttanna. Bachelor-þjóðin þekkir James sem vin fyrrum þátttakandans Tyler Cameron sem tók þátt í fimmtándu seríu The Bachelorette. Upphaflega hafði staðið til að James yrði þátttakandi í nýjustu seríunni af The Bachelorette en þegar framleiðsla á henni stöðvaðist vegna kórónuveirunnar var ákveðið að hann fengi stærra hlutverk.

Rob Mills, einn af yfirumsjónarmönnum þáttanna, sagði í samtali við Variety að ákvörðunin hefði ekki verið tekin í kjölfar yfirlýsingar Lindsay heldur hefði þetta alltaf verið stefnan. Allir væru meðvitaðir um það ástand sem væri í heiminum um þessar mundir og vonast var eftir því að tilkynningin yrði örlítil jákvæðnisprauta á þeim tímum sem mikil þörf væri fyrir hana. „Við viljum hins vegar ekki að þetta líti út eins og við séum að klappa okkur sjálfum á bakið eða að hlaupa sigurhring. Við viljum ekki að þetta líti út fyrir að vera einhvers konar lækning við öllu og vitum að þetta eru bara nokkur sandkorn í sandinn í mjög stóru tímaglasi,“ bætir Mills við. 

Á Instagram-reikning Chris Harrison, sem er kynnir í þáttunum, birtist í kjölfarið yfirlýsing frá framleiðendum þáttanna þar sem þeir viðurkenna ábyrgð sína á að hafa ekki haft fjölbreyttari þátttakendur í þáttunum hingað til og lofa að gera breytingar til þess að takast á við vandamálið í framtíðinni. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Chris Harrison (@chrisbharrison) on

James sjálfur segir þetta vera skref í rétta átt og vonar að hann sé bara einn af mörgum svörtum mönnum sem fái að vera í þessari stöðu. Aðspurður hvort ákvörðun framleiðendanna um að velja hann sé of lítið of seint segist hann trúa því að það sé aldrei rangur tími til að gera eitthvað rétt. Hann segir það mikinn heiður að vera fyrsta svarta piparsveininn og vonar að hann geti orðið fyrirmynd fyrir einhverja. „Ég held að það séu margir í þeirri stöðu að þeim finnist óþægilegt að fara út með fólki sem tilheyri ekki þeirra kynþætti en vonandi get ég rutt veginn fyrir fjölbreyttari ástarsögur,“ bætir hann við.

Tengdar fréttir

Fyrsta hinsegin bónorðið í Bachelor heiminum