Losuðu veiðarfæri af hnúfubak í vanda

15.06.2020 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Björgunarsveit losaði veiðarfæri sem föst voru í hnúfubak, um 50 sjómílur austur af Fáskrúðsfirði. Björgunarsveitarmenn festu hnífa á löng prik til að ná til hvalsins en formaður sveitarinnar segir dýrið hafa verið hrætt og ósamvinnuþýtt.

Grétar Helgi Geirsson, formaður björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði segir fiskibát hafa tilkynnt um hval á ferðinni með veiðarfæri aftan í sér, belg, bauju og línur og þau kæmu sennilega í veg fyrir að hann gæti kafað. Í framhaldinu sendi Landhelgisgæslan beiðni til Geisla, hvort þeir gætu reynt að losa hvalinn úr prísundinni. 

Festu hnífa á löng prik

Þrír vaskir björgunarsveitarmenn héldu því á haf út, vopnaðir krók og hnífum sem þeir höfðu fest á löng prik til að geta skorið á reipin. Grétar segir siglinguna út hafa tekið um einn og hálfan tíma þrátt fyrir að vera á mjög hraðskreiðum bát. 

„Og þá hófst eltingarleikurinn,“ segir Grétar Helgi. Hvalurinn hafi verið hræddur og  ósamvinnuþýður, þeir hafi því elt hann í góðan hálftíma áður en þeir náðu að skera á línurnar og losa hann úr prísundinni. Það gekk þó ekki vandræðalaust, því línan aftan úr hvalnum flæktist í skrúfunni á björgunarbátnum Hafdísi. Það þurfti því að leysa hana upp og skera línuna burt. Grétar segir þetta hafa verið gerlegt þar sem það hafi verið gott í sjóinn, annars hefði björgunin ekki tekist.

Honum finnst líklegt að veiðarfærin hafi verið föst í einhvern tíma enda hafi dýrið verið sært á sporðinum eftir að hafa reynt að kafa með aðskotahlutina. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband af björguninni.

Uppfært klukkan 17:57 - Það var hnúfubakur sem hafði flækst í veiðarfæri en ekki búrhvalur eins og upphaflega stóð í fréttinni.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi