Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lögregla fær heimild til að snúa fólki við á landamærum

Eftirlit með ferðamönnum verður aukið og lögregla fær meiri heimildir til að snúa fólki við á landamærum ef grunur leikur á að það muni brjóta gegn sóttvarnarráðstöfunum, til að mynda með því að rjúfa sóttkví.

Ganga þarf úr skugga um að farþegar skilji með hvaða hætti smitvarnir séu hér á landi, sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í Kastljósi í kvöld. Hann segir að fylgst sé með fólki eftir að það kemur til landsins, og haft samband við fólk þegar niðurstöður úr skimun liggur fyrir.

„Sex til átta klukkutímum eftir að farþegi kemur til landsins, þá vitum við hvort að hann er með jákvætt sýni eða ekki. Þá er náttúrulega farið strax í að hafa samband við viðkomandi. Ef hann svarar ekki eða er ekki þar sem að hann á að vera þá er farið í að leita að honum með öllum tiltækum ráðum sem er,“ segir Víðir.

Byggist ávallt á trausti

Víðir segir að hingað til og hér eftir byggist verkefni eins og það sem fengist er við núna með opnun landamæra á trausti og að fólk sé samviskusamt með að virða sóttkví. Það hafi verið áfall í því verkefni þegar mál Rúmennana kom upp um helgina. Lögreglan hafi auknar heimildir til að snúa fólki við á landamærunum, en þó ekki auknar rannsóknarheimildir til að kanna bakgrunn fólks sem kemur hingað til lands. 

„Heimildirnar snúa fyrst og fremst að því að framkvæmdinni við að vísa fólki frá. Heimildirnar sem við höfum  núna er að lögregla getur  samkvæmt sínu hættumati á einstaklingunum lagt mat á það hvort að hann sé líklegur til að fylgja sóttvarnarráðstöfunum. Ef niðurstöðurnar eru þær að viðkomandi sé líklegur til að brjóta af sér og virða ekki sóttvarnirnar þá er hægt að stöðva för hans og rannsaka málið frekar. Í framhaldi af því að taka ákvörðun um það hvort að það eigi að neita honum alfarið um að koma til landsins og senda til upprunalandsins.“

Og hvað er það sem að gæti bent til þess að viðkomandi sé ekki líklegur til að fylgja sóttvarnarráðstöfunum?

„Það er ýmislegt, það er tekið viðtal við þetta fólk og ef það bendir til þess að viðkomandi sé ekki að skilja út á hvað þetta gengur og hegðun þeirra er með þeim hætti að það sé líklegt að þau ætli ekkert að gera þetta. Það er alveg möguleiki og ýmislegt annað til skoðunar, þá er það með þessum hætti. En ég ítreka að í þessu felast engar auknar rannsóknarheimildir.“ segir Víðir.

Hann sagði að ekki verði hikað við að loka landamærum með skömmum fyrirvara ef mörg smit greinast í farþegum sem hingað koma.  Staðan sé endurmetin á hverjum degi.  

„Ef það greinist mikill fjöldi jákvæðra sýna í þessu fólki sem er að koma þá kallar það á endurskoðun þessarrar ákvörðunar. Þetta er hlutur sem við þurfum að ræða á hverjum einasta degi. Við fáum yfirlit yfir þetta á morgun. Starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar verða að greina þessi sýni fram á nótt. Við fáum ekki heildarsamantektina af því fyrr en í fyrramálið, þá verður staðan endurmetin og aftur og aftur og aftur. Við hikum ekki við að skipta um skoðun og taka nýjar ákvarðanir,“  segir Víðir.

Kastljós kvöldsins má sjá hér. Auk Víðiss var rætt við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair og Sveinbjörn Indriðason, forstjóra ISAVIA.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV