Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lofuðu hlutum sem þeir gátu ekki staðið við

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Menn voru komnir út af sporinu og búnir að lofa hlutum sem þeir gátu ekki staðið við, sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Bjarni kom í morgun fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins til að ræða aðkomu fjár­málaráðuneyt­is­ins varðandi að Þor­valdi Gylfa­syni var boðin rit­stjórastaða nor­ræna fræðirits­ins Nordic Economic Policy Review, NEPR.

 

Töluvert hefur verið fjallað í fjölmiðlum undanfarna daga um að fjármálaráðuneytið hafi tilkynnt Norrænu ráðherranefndinni að ráðuneytið gæti ekki stutt ráðningu Þorvaldar í ritstjórastöðuna, sem nefndin hafði þá þegar boðið honum. Sú ákvörðun vakti furðu nefndarinnar sem í kjölfarið óskaði skýringa.

„Okkar upplegg í upphafi var að æskilegt væri að sá sem myndi veljast til starfans yrði einstaklingur sem hefði nýlega reynslu af aðkomu að stefnumótin í málaflokknum,“ sagði Bjarni. Eins væri æskilegt að viðkomandi hefði stundað fræðiskrif á viðkomandi sviði og þá væri tímabært að fá konu til að ritstýra tímaritinu. 

Þrjár tillögur fjármálaráðuneytisins, þar sem kona og svo tveir karlar til vara voru tilnefnd snemma á síðasta ári, hafi hins vegar ekki fengið brautargengi. Nafn Þorvaldar hafi hins vegar ekki verið nefnt við ráðuneytið fyrr en búið var að bjóða honum stöðuna. 

„Viðbrögðin sem urðu eftir að við svöruðum skýrast á því að þarna átti sér stað frumhlaup af hálfu starfsmanns nefndarinnar, því hann var þá í vondri stöðu,“ sagði Bjarni í svörum sínum við fyrirspurn Guðmundar Andra Thorssonar.  Tímaritið sé samstarfsverkefni ríkisstjórna Norðurlandanna og hafi fjármálaráðuneyti ríkjanna haft þann hátt á að koma sér saman um val ritstjóra. 

Lars Calmfors, fráfarandi ritstjóri, sagði í skriflegu svari til fréttastofu í morgun, stýrihópa sem fjármálaráðuneyti Norðurlandanna eiga fulltrúa í taka þátt í að velja þema fyrir tímaritið NEPR, en að öðru leyti væru ritstjórnarlegar ákvarðanir og stjórn á efnistökum á hendi ritstjóra tímaritsins. 

Karlar sem þekkjast frá því í gamla daga

Kveðst Bjarni standa við sín fyrri orð um að Þorvaldur sé ekki heppilegur samstarfsaðili fyrir verkefnið, þar sem tímaritið eigi að innihalda fræðigreinar sem séu innlegg í þá stefnumótun sem á sér stað í ríkjunum. Pólitík sé þó ekki ástæða þess að ráðuneytið lagðist gegn ráðningunni.  „Margar ríkisstjórnir hafa starfað undanfarinn áratug, enginn þeirra að því er mér er kunnugt um leitaði til Þorvaldar Gylfasonar,“ sagði Bjarni.

Leiddi ráðherra líkum að því að kunningsskapur Þorvaldar og Calmfors væri væntanleg ástæða þess að Þorvaldi hefði verið boðið starfið. Calmfors hefði staðið fyrir útgáfu ýmissa annarra rita sem Þorvaldur hefði átt greinar í. „Maður myndi halda að þeir hafi fylgst vel með hvor öðrum í gegnum tíðina,“ sagði Bjarni og kvað þetta geta útskýrt viðbrögð nefndarinnar. 

„Það er ekki nema eðlilegt að þeir hafi hrokkið við. Þeir höfðu gengið lengra en þeir höfðu umboð til og þurfa þar með að horfast í augu við hluti sem þeir geta ekki staðið við.“  

Varpaði ráðherra því næst fram þeirri spurningu hvort að þarna hafi gamla góða kunningjasamfélagið verið að verki. „Karlarnir sem þekkjast frá því í gamla daga, þeir ætluðu að ákveða hver myndi stjórna,“ sagði Bjarni.

Undantekning að tilnefna einstakling frá öðru ríki

Kolbeinn Óttarsson Proppé spurði ráðherra hvort ekki heyrði til undantekninga í norrænu samstarfi að ríki tilnefndi einstaklinga frá öðrum ríkjum en sínu eigin. Játaði Bjarni því að slíkt heyrði vissulega til undantekninga, en gæti þó gerst. Ísland studdi ráðningu finnska prófessorsins Jukka Pekkarinen umfram ráðningu Þorvaldar.

„Það var ekki klappað í stein að við myndum ráða hver ritstýrði að þessu sinni,“ sagði Bjarni. Það hefði þó verið nefnt að mögulega væri röðin komin að Íslandi. „Þetta var ekkert prinsipp af okkar hálfu, en við töldum okkur vel geta fundið einstakling sem gæti sinnt þessu vel og af sóma.“

Guðmundur Andri sagði Þorvald vissulega kominn á aldur, en hann hefði mikla reynslu bæði sem ritstjóri og af setu í ritstjórnum. „Hann var ekki bara gripinn upp af götunni,“ sagði hann. „Er ekki eðlilegt að ritstjóri sé ráðinn á slíkum forsendum þegar vantar mann, frekar en að samband viðkomandi við stjórnvöld ráði för?“ Ekki megi rugla hæfi Þorvaldar saman við stirt samband hans við stjórnvöld.

Bjarni vísaði þá aftur til sinna fyrri orða um að ráðuneytið hefði viljað einhvern sem hefði fræðilega getu og nýlega reynslu af efnahagsmálum. „Hér hafa verið tvær efnahagsdýfur á síðustu árum og við það bætist allt það sem er að gerast í umhverfis- og loftslagsmálum. Ég hef verið að leita að besta módelinu fyrir orkuskipti og það er svið sem maður vildi gjarnan sjá meira skrifað um.“ Þetta séu áskoranirnar sem stjórnvöld standi frammi fyrir og það sé slíkur einstaklingur sem leitað sé að. 

Þó hann telji Þorvald ekki falla vel að hugmyndum fjármálaráðuneytisins hafi hann ekkert að klaga upp á hans akademíska frelsi.

„Ég hef hins vegar fullan skilning á að það sé verið að kalla eftir skýringum og af hverju við erum að gefa út þetta rit,“ sagði Bjarni og ítrekaði að þau gögn sem Þorvaldur hefði fengið afhent og ætti rétt á væru einungis lítið brot af þeim samskiptum sem hefðu átt sér stað um ritstjóraráðninguna og myndin því mjög bjöguð.