Ingibjörg Björnsdóttir hlýtur heiðursverðlaun

Mynd: RÚV / RÚV

Ingibjörg Björnsdóttir hlýtur heiðursverðlaun

15.06.2020 - 21:20

Höfundar

Grímuverðlaunin voru afhent í Borgarleikhúsinu í kvöld og hlaut Ingibjörg Björnsdóttir heiðursverðlaun Íslenska Sviðslistasambandsins. Forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson, afhenti Ingibjörgu verðlaunin.

Ingibjörg Björnsdóttir, heiðurverðlaunahafi Íslenska Sviðslistasambandsins 2020, hefur um langt skeið unnið að því að efla listdans hér á landi og var meðal fyrstu Íslendinga til að fara utan í dansnám. Að loknu námi í listdansskóla Þjóðleikhússins hélt hún til Edinborgar til að fullnema sig í listdansi við Skoska Listansskólann. „Danslistin og sviðsdansinn, sem er ekki nema rúmlega aldargamall, hefur að miklu leyti verið verk kvenna,“ segir hún og þakkar þeim íslensku konum sem hafa haldið utan til að nema dans í gegnum tíðina, og oft komið sér í hættulegar aðstæður. „Þessar konur lögðu grunn að listdanssköpun og danskennslu á Íslandi. Í dag er engin þörf á að setja lífið í hættu til að afla sér menntun í listdansi.“

Hún fagnar mikilli grósku í dansi á Íslandi og nefnir meðal annars börn um allan heim sem kynnast og njóta gleðinnar í dansinum. „Við verðum að vanda okkur og veita góða menntun í dansi,“ segir hún.

„Ég rakst á skilgreiningu um að dans væri endurtekin hreyfing sem þjónar engum tilgangi,“ segir hún og uppsker mikil hlátrasköll úr salnum. „Það finnst mér þröng skilgreining.“

Mynd: Gríman / -
Ingibjörg hefur komið víða við á ferlinum

Við heimkomu frá Skotlandi hóf Ingibjörg störf sem dansari við Þjóðleikhús Íslands þar sem hún steig spor í fjölmörgum leikritum, óperum og söngleikjum. Eftir stofnun Íslenska Dansflokksins árið 1973 dansaði hún með flokknum þó hún væri ekki meðlimur í honum. Hún hefur einnig samið dansa og dansverk fyrir Íslenska Dansflokkinn og leikhús. Hún kenndi við Ballettskóla Sigríðar Ármann og við Listansskóla Þjóðleikhússins þar sem hún tók við skólastjórastöðu árið 1977. Ingibjörg var fyrsti skólastjóri Listansskóla Þjóðleikhússins sem í dag heitir Listdansskóli Íslands og því starfi gengdi hún í tvo áratugi. 

Hún hefur verið virk í félagsmálum listdanssara, setið í stjórn Íslenska Dansflokksins, Félags íslenskra Listdanssara, Bandalags íslenskra listamanna, Leiklistarsambands Íslands og Norræna leiklistar- og danssambandsins sem síðar hlaut nafnið Teater og dans I Norden. Hún gengdi um árabil formennsku í Dansfræðafélaginu sem stendur að ýmsum námskeiðum og ráðstefnum hér á landi og einnig á alþjóðlegum vettvangi. Hún hlaut Fálkaorðuna fyrir brautryðjendastarf á sviði íslenskrar danslistar árið 2012 enda má að stórum hluta þakka ástríðu hennar og eljusemi framgang þessarar listgreinar hér á landi.  

Tengdar fréttir

Leiklist

Gríman 2020