Í návist jökla, fossa og heitra lauga á fjórum dögum

Mynd með færslu
 Mynd: Skinney Þinganes - Steinunn SF 10

Í návist jökla, fossa og heitra lauga á fjórum dögum

15.06.2020 - 14:44
Í sumar ætlum við á RÚV núll að koma með hugmyndir af nokkrum skemmtilegum ferðum til að fara í með fjölskyldu eða vinum og kynna lesendum undir nafninu Pakkaferð RÚV núll. Í þessari viku förum við í ferð um Suðurlandið og part af Suðausturlandi.

 

RÚV núll setur saman hugmyndir að nokkrum skemmtilegum ferðum fyrir fjölskyldur eða vini undir nafninu Pakkaferð RÚV núll. Í ferðinni sem hér er lýst er gert ráð fyrir fjórum dögum á fallegum stöðum. Að sjálfsögðu er hægt að hafa ferðina styttri eða lengri, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hér er gert ráð fyrir að lagt sé af stað frá höfuðborgarsvæðinu en að sjálfsögðu er hægt að leggja í þetta ferðalag hvaðan sem er og nýta hugmyndirnar til að skapa hið fullkomna ferðalag.

Dagur 1
Við leggjum snemma af stað og höldum í Hveragerði. Í dag keyrum við samtals 187 km, frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal og stoppum á skemmtilegum stöðum á leiðinni. Í Hveragerði væri hægt að fá sér góðan morgunmat og skoða þennan blómlega bæ. Því næst er stefnan tekin á Reykjadal. Þangað er um 40 mínútna ganga og ættu flestir að ráða við hana sem ekki glíma við neitt sem kæmi í veg fyrir lengri göngur. Öll leiðin er gengin eftir stíg og þótt einstaka brekka sé brött er ekkert klifur. ÍSundfötin þurfa að sjálfsögðu að vera meðferðis því það er einstakt að dýfa sér ofan í heita ána á áfangastað. Það má alveg gera ráð fyrir að stoppa í Reykjadal í klukkustund svo þegar komið er aftur að bílnum er kominn tími á hádegismat í höfuðstað Suðurlands, Selfossi. Þar er nú varla hægt að stoppa án þess að fá sér eina pulsu, sama hvað klukkan er. 

Keyrum svo áfram þjóðveginn í um það bil klukkustund. Næsta stopp er Seljalandsfoss, einn vinsælasti foss landsins, og það af ríkri ástæðu. Þar er nauðsynlegt að ganga á bak við fossinn eins og Íslandsvinurinn Justin Bieber gerði hér um árið.

 

 

Ef göngustígnum neðan við fossinn er fylgt áfram má skoða Gljúfrabúa, það er ekki löng leið en mjög falleg. Seljavallalaug er þarna rétt hjá en það tekur um 20 mínútur að ganga að lauginni. Þeir sem slepptu Reykjadal geta tekið sundsprett þar. 

Eftir smá dýfu er haldið áfram og næsti áfangastaður er Sólheimasandur, á leiðinni er hægt að stoppa við Skógafoss. Ef þú ert enn í göngugírnum þá er gaman að ganga á Sólheimasandi og fara alla leið að flugvélarflakinu. Það eru um 7,5 km báðar leiðir. Ef þú ert ekki í stuði þarftu ekki að hafa áhyggjur því næsta stopp er Reynisfjara. Þangað er ekki nema 25 km akstur. 

Við mælum svo með að taka það rólega í Vík í Mýrdal. Þar er frábært tjaldsvæði og önnur gisting og kominn tími til að fá sér kvöldmat og draga spil. Fyrir fólk í ævintýrahug mætti til dæmis hugsa sér að gista á tjaldsvæðinu í Þakgili, skammt frá Vík, sem er veglegur keppandi um titilinn fallegasta tjaldsvæði landsins.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Wiki Commons
Flugvélarflakið á Sólheimasandi

Dagur 2
Við leggjum í hann frá Vík og stefnum á að byrja daginn á sundspretti í sundlauginni á Kirkjubæjarklaustri. Þangað er um klukkustundar akstur og á leiðinni er farið fram hjá Systrafossi sem gaman er að virða fyrir sér.. Þaðan er haldið að Dverghömrum um 15 km frá Klaustri. Dverghamrar eru stuðlabergsklettar úr blágrýti. 

Ferðin heldur áfram og nú nálgumst við Suðausturland. Við brunum í átt að Vatnajökli, keyrum fram hjá Kálfafelli og Núpsstað. Þar standa gömul bæjarhús sem gaman er að virða fyrir sér. 

Frá Dverghömrum í Skaftafell eru 57 km. Þar er hægt að horfa til jökla og fá sér kaffibolla og djús. fara svo að Svartafossi sem er þvílík náttúruperla. Síðasta stoppið í dag er ekki langt frá, aðeins eru 6,9 km að Svínafelli þar sem er fallegt tjaldsvæði og gott að gista.

Skaftafell National Park, Svartifoss
Svartifoss í Skaftafelli Mynd: Arian Zwegers - Wikimedia
Svartifoss

Dagur 3
Það er ekki löng keyrsla í dag en þó nóg að gera og skoða. Við brunum frá Svínafelli í Jökulsárlón, 51 km. Þar er mikilvægt að henda í eina skemmtilega mynd. Hefur maður nokkuð komið að lóninu ef engin mynd var tekin? Það er að minnsta kosti ekki hægt að sanna það. Það er hægt að fara í ferð um Jökulsárlón og jafnvel sjá seli spóka sig.

Því næst setjum við okkur í menningargírinn og næsta stopp er Þórbergssetur að Hala í Suðursveit. Þar eru sýningar helgaðar sögu Suðursveitar og lífi og verkum Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar. Næsta og síðasta stoppið í dag er Hornafjörður. Þangað tekur um 50 mínútur að keyra. Á leiðinni má auðvitað njóta fallegrar náttúru, jökla og fjalla. Á Höfn í Hornafirði er frábært tjaldsvæði en einnig önnur gisting. Hornafjörður býr yfir sterkri matarmenningu og Höfn er oft kölluð höfuðborg humarsins. Það má enginn missa af því.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Jökulsárlón - Google
Jökulsárlónið

 

Dagur 4
Í dag er haldið heim. Frá Hornafirði til Reykjavíkur eru 452 km sem er töluverður akstur, um sex tíma leið. Það er þó óþarfi að fara þetta í einni beit því að það er nóg hægt að skoða á bakaleiðinni, staði sem ekki náðust á ferðalaginu austur. Við mælum með því að taka daginn snemma því að í Hornafirði er margt að gera og í boði alls kyns ferðir á borð við jöklagöngur, sjókajakferðir og að slappa af í náttúrupottum í Hoffelli. Á heimleiðinni er hægt að gera sér að leik að stoppa og borða í þéttbýli þar sem ekki var staldrað við á leiðinni úr bænum.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Sveitafélag Hornafjarðar - Kayak

RÚV núll setur fram tillögur að skemmtilegum ferðalögum til að fara í sumar.

Tengdar fréttir

Fimm daga ferð um Vestfirði og ótrúleg náttúrufegurð