Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hámarksfjöldi á samkomum kominn upp í 500 manns

Mynd með færslu
 Mynd: Vigdís Diljá Óskarsdóttir - RÚV
500 manns mega mest koma saman frá og með deginum í dag og mun sá hámarksfjöldi gilda til 5. júlí að óbreyttu. Áður höfðu mest 200 manns mátt koma saman.

Skimun hefst þá fyrir kórónuveirunni á Keflavíkurflugvelli  í dag og hafa sýnatökubásar verið settir upp á flugvellinum. Munu farþegar nú geta valið milli þess að fara í sýnatöku eða að fara í tveggja vikna sóttkví. 

Engar breytingar verða á mannfjöldatakmörkunum í sundlaugum og líkamsræktarstöðvum, utan 500 manna hámarkið, en þessir staðir hafa mátt vera með 75% af leyfilegum hámarksfjölda frá því 25. maí.

Veitingastöðum sem selja áfengi og spilasölum er þá áfram gert að loka klukkan 23:00 á kvöldin, þar sem sérstök smithætta þykir felast í þeirri starfsemi.

Fólk er þó áfram hvatt til að viðhalda tveggja metra nálægðarmörkum eftir því sem kostur er, en starfsemi leikskóla er undanskilin þeim takmörkunum.