Hafnarhúsið opnað á Borgarfirði eystra

15.06.2020 - 09:33
Nýtt og glæsilegt þjónustuhús við Hafnarhólma á Borgarfirði eystra var opnað um helgina. Sveitarstjórinn spáir því að fleiri en 150 þúsund ferðamenn heimsæki Hólmann á ári en óvíða er hægt að komast í jafn mikið návígi við lunda. Húsið er ekki enn orðið aðgengilegt hreyfihömluðum.

Við Hafnarhólma á Borgarfirði eystra er sambýli smábátahafnarinnar á staðnum, lundabyggðar og ferðamanna sem koma til að skoða þennan vinsæla fugl. Þarna vantaði aðstöðu bæði fyrir sjómenn og ferðamenn og nú er það tilbúið: Hafnarhúsið. Arkitektar hússins eru Andersen & Sigurdsson Arkitektar og Archdaily fjallaði um bygginguna. Hún var þrjú ár í smíðum, kostaði um 200 milljónir en styrkir fengust frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Þar getur ferðafólk kynnt sér náttúru svæðisins og staldrað við eftir lundaskoðun.

Ferðamenn fá tár í augun

„Sérstaðan hér er sú að hann er mjög spakur lundinn og þú ert svo nálægt honum. Þetta er alveg einstök upplifun að fuglinn bara situr og horfir á þig. Það hafa margir bara fengið tár í augun sem hafa gist hjá okkur og dvalið hér á Borgarfirði því þetta er þvílík upplifun. Hérna verður Kaffihús og á efstu hæðinni verður listatengdur salur, þar sem menn koma og setja upp ýmsar sýningar og nú þegar erum við búin að fá tvo heimamenn til að sýna myndir. Svo er þetta líka þjónustuhús fyrir sjómenn og fyrir gesti sem koma hérna í Hafnarhólma. Ég held að þetta bara auki fjölbreytni og það hefur vantað aðstöðuhús með snyrtingar og annað slíkt,“  segir Auður Vala Gunnarsdóttir, sem rekur ferðaþjónustuna Blábjörg á Borgarfirði og einnig nýja Hafnarhúsið.

Vantar lyftu sem kostar 7 milljónir

Húsið er enn þá lyftulaust og því illaðgengilegt hreyfihömluðum með bröttum stiga. Húsið var dýrara en búist var við og til að spara var því frestað að kaupa 7 miljóna króna lyftu en lyftustokkurinn er klár. Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, hafa gert athugasemd við þessa ráðstöfun.

Kenndu Borgfirðingum að dást að lundanum

Í sýningarsalnum er nú ljósmyndasýning á myndum eftir Hafþór Snjólf Helgason og Kormák Mána Hafsteinsson eða KOX. Þarna er í framtíðinni stefnt að gagnvirkri sýningu eins konar náttúrugátt Borgarfjarðar. Þar verður fuglalífið í stóru hlutverki enda blasir það við úr nýja Hafnarhúsinu. Segja má að erlendir ferðamenn hafi kennt Borgfirðingum að dást að lundanum eftir að hafnargarður var lagður út í hólmann.

„Þá tók Magnús [Þorsteinsson] sem þá var sveitarstjóri eftir því að það söfnuðust hérna saman útlendingar og fóru að góna upp í hólmann. Hann skildi ekkert hvað þeir voru að gera og fór að athuga þetta og ræða við þá og þá kom í ljós að þeir voru að horfa á lunda. Þá datt honum í hug að það væri kannski ágætt að smíða stiga upp í hólmann. En í fyrra þá töldum við þarna og það fóru rétt tæplega 50 þúsund manns upp stigann upp í hólma. Ég býst við því að eftir svona 2-3 ár þá verði þetta frekar 150 eða 200 þúsund þegar allt er komið í fulla notkun,“ segir Jón Þórðarson, sveitarstjóri á Borgarfirði eystra.

Horfa á frétt

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi