Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hættir formennsku og segir persónu sína dregna í svaðið

15.06.2020 - 15:20
Mynd: RÚV / RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tilkynnti við upphaf þingfundar í dag að hún væri hætt störfum sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Hún sagði meirihluta nefndarinnar hafa dregið persónu sína niður í svaðið og notað sig sem blóraböggul til að koma í veg fyrir að minnihlutinn sinnti eftirlitshlutverki með framkvæmdavaldinu.

Þórhildur Sunna kvað sér hljóðs við upphaf þingfundar. Hún sagði að tilraunir minnihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefðu „einungis orðið meirihlutanum tilefni til valdníðslu og linnulausra árása“. Þannig hefði meirihlutinn staðið í vegi fyrir frumkvæðisathugun á hæfi Kristján Þórs Júlíussonar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Með því hefði verið skapað hættulegt fordæmi og eftirlitshlutverk Alþingis veikt.

„En til þess að réttlæta þessa aðferð sína kýs meirihluti nefndarinnar að draga persónu mína sífellt niður í svaðið og nota mig sem blóraböggul. Þessi aðferðafræði, að skjóta sendiboðann, er þaulreynd þöggunar- og kúgunaraðferð. Ég mótmæli þessari aðför, mér misbýður þetta leikrit og ég ætla ekki að taka þátt í því lengur,“ sagði Þórhildur Sunna. „Formennsku minni í þessari nefnd er hér með lokið.“

Alþingi er í eðli sínu átakavettvangur, sagði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann sagði að þegar tekist væri á um stefnumál og annað varðaði öllu að geta sýnt hverju öðru kurteisi og mannasiði. „Það hefur skort á það í háttvirtri stjórnkerfis- og eftirlitsnefnd. Formanninum, háttvirtum þingmanni Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, hefur verið gert ákaflega erfitt fyrir í sínu starfi innan nefndarinnar og ég sýni því fullan skilning sem hún hefur ákveðið að gera.“

Áþreifanlegt andrúmsloft vantrausts

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, lýsti eftirsjá að Þórhildi Sunnu en sagði ákvörðun hennar skiljanlega. Sjálfur hefði hann komið inn í nefndina á miðjum vetri og þá hefði verið áþreifanlegt andrúmsloft vantrausts. „Eins og þingmaðurinn lýsti hér áðan hafði meirihlutinn nýtt hvert skref til að grafa undan formennsku hennar í nefndinni.“

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, velti því upp hvort að öðruvísi væri komið fram við konur eða karla á þingi. „Það hefur verið komið fram við mig á hátt sem ég efast um að væri gert ef ég væri karlmaður.“ Hún sagðist ekki geta staðhæft að svo væri þar sem hún hefði aldrei verið karlmaður. Halldóra sagði þetta þó vekja spurningar um þá ofbeldismenningu sem viðgengist á Alþingi.

Vantraust á báða bóga

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagðist ekki geta orða bundist vegna umræðunnar. „Það sem ég hef orðið vitni að í þessari nefnd sé ég ekki að sé ólíkt öðrum nefndum. Það hefur ríkt vantraust og það hefur verið á báða bóga, ekki síst frá minnihluta til meirihluta.“ Hún sagði að í ljósi umræðu minnihlutans um þingmenn í öðrum nefndum gæti hún alls ekki tekið undir þetta.

Fréttin hefur verið uppfærð.