Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fleiri komu til landsins en búist var við

15.06.2020 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Um níu hundruð flugfarþegar komu til landsins í dag þegar skimun fyrir kórónuveirunni á landamærunum hófst en gert var ráð fyrir um 650. Allir völdu að fara í skimun fremur en tveggja vikna sóttkví. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda sýna sem tekin voru en börn sem eru yngri en 16 ára eru ekki skimuð. Íslensk erfðagreining vinnur nú að því að greina sýnin.

Átta vélar lentu á Keflavíkurflugvelli í dag og voru farþegar sjö þeirra skimaðir. Áttunda vélin kom frá Færeyjum en farþegar frá Grænlandi og Færeyjum eru undanskildir þessu fyrirkomulagi.

Sýnatakan verður gjaldfrjáls fram til 1. júlí næstkomandi en frá þeim tíma greiða ferðamenn 15 þúsund krónur fyrir hvert sýni. Farþegar fylla út forskráningarform áður en þeir eru skimaðir, annað hvort á covid.is eða í básum á flugvellinum. Gert er ráð fyrir að farþegar fái niðurstöðu úr skimun fimm klukkustundum eftir sýnatökuna og hafa einhverjir farþegar þegar fengið smáskilaboð með niðurstöðu.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði við fréttastofu síðdegis að upplýsingar um smit liggi ekki fyrir að svo stöddu. Á morgun verði haldinn blaðamannafundur þar sem farið verður yfir hvernig fyrsti dagur skimunar gekk fyrir sig og hvort smit hafi greinst.