Fjögur óska rökstuðnings eða gagna vegna ráðningar

15.06.2020 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Fjórir af átján umsækjendum um stöðu borgarritara hafa óskað eftir rökstuðningi, upplýsingum eða gögnum vegna ráðningaferlis í starf borgarritara. Borgarráð samþykkti á fundi sínum 30. apríl að ráða Þorstein Gunnarsson, þáverandi sveitarstjóra Skútustaðahrepps, í starfið. Hann tók við starfinu af Stefáni Eiríkssyni sem hætti sem borgarritari til að taka við starfi útvarpsstjóra.

Enginn þeirra sem óskað hafa eftir rökstuðningi frá borginni, upplýsingum eða gögnum hefur tilkynnt borginni að viðkomandi hyggist kæra niðurstöðuna eða höfða mál.

Staða borgarritara var auglýst laus til umsóknar 14. febrúar og átján skiluðu inn umsókn áður en umsóknarfrestur rann út þann 16. mars. Regína Ásvalds­dótt­ir, sviðs­stjóri vel­ferð­ar­sviðs Reykja­vík­ur­borgar, var skipuð for­mað­ur hæfnisnefndar sem fór yfir umsóknir. Með henni í hæfnisnefnd voru Ásta Bjarna­dótt­ir, mannauðs­stjóri Land­spít­al­ans, og Gylfi Magn­ús­son, dós­ent við Háskóla Íslands.

Sex umsækjendur voru boðaðir í viðtal og voru fjórir metnir þannig að þeir uppfylltu best hæfnisskilyrði auglýsingarinnar. Fjórmenningarnir voru boðaðir í annað viðtal. Hæfnisnefndin tók öll viðtölin og gerði tillögu um Þorstein Gunnarsson í stöðu borgarritara. Borgarráð samþykkti þá tillögu með atkvæðum meirihlutans í borgarstjórn en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi