Ferli Icelandair tekur lengri tíma tíma en áætlað var

15.06.2020 - 17:29
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Tryggvason - RÚV
Stjórnendur Icelandair stefna að því að allir nauðsynlegir samningar vegna endurskipulagningar og endurfjármögnunar fyrirtækisins liggi fyrir eftir tvær vikur. Á hluthafafundi Icelandair fyrir rúmum þremur vikum var gert ráð fyrir að búið yrði að ganga frá öllum slíkum samningum í dag. Nýja dagsetningin er 29. júní.

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar. Stefnt hefur verið að hlutafjárútboði 29. júní til 2. júlí. Í tilkynningunni til Kauphallarinnar segir að uppfærðar dagsetningar vegna hlutafjárútboðs verði kynntar þegar samningar eru á lokametrunum.

Í tilkynningunni segir að unnið sé að fjárhagslegri endurskipulagningu í samvinnu við íslensk stjórnvöld og þeirra sem eiga hagsmuna að gæta. Þeirra á meðal er flugvélaframleiðandinn Boeing, lánardrottnar, flugvélaleigusalar og birgjar. Áhyggjum er lýst af því að samningar hafa ekki náðst við Flugfreyjufélag Íslands. Viðræðum við Boeing um MAX flugvélar og bætur vegna þeirra miðar ágætlega. „Viðræður við lánveitendur, flugvélaleigusala, færsluhirða, mótaðila í olíuvörnum, birgja og aðra eru í fullum gangi með það að markmiði að endurskipuleggja samningsbundnar greiðslur félagsins til að þær falli að væntu framtíðar sjóðstreymi,“ segir í fréttatilkynningu frá Icelandair. „Icelandair Group lítur svo á að sú leið sem kynnt hefur verið varðandi fjárhagslega endurskipulagningu félagsins sé ákjósanlegasta leið félagsins til að tryggja hagsmuni allra aðila til lengri tíma, þar með talið viðskiptavina og starfsfólks. Náist ekki samkomulag við helstu hagaðila, mun félagið þurfa að skoða aðrar leiðir til þess að ljúka endurskipulagningu félagsins.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi