Voru í samskiptum við annan hóp sem er líka á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Rannsókn á máli sexmenninganna frá Rúmeníu hefur tekið óvænta stefnu því lögreglan kannar nú samskipti hans við annan hóp Rúmena sem er staddur hér á landi og kom til landsins með vél Wizz Air þann 5. júní. Þetta staðfestir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.

„Við þurfum að kanna hvort það sé einhver smithætta á milli þessara hópa,“ segir Víðir í samtali við fréttastofu.

Fólkið hefur neitað að það þekkist innbyrðis. Það breytir því ekki að það átti að fara eftir reglum um sóttkví; reglum sem breytast á miðnætti í kvöld þegar tekin verða sýni úr öllum sem koma til landsins.

Víðir segir ljóst að þetta séu einstaklingar sem ætluðu ekki að vera hér sem ferðamenn; enginn fótur hafi verið fyrir þeim upplýsingum sem fólkið gaf upp við komuna til landsins, hvorki varðandi símanúmer né gististaði.

Víðir segir að ekki sé vitað nákvæmlega hversu margir eru í hinum hópnum en þeir séu líklega 5 til 6. „Það er gengið út frá því að þeir séu allavega fimm.“ Hann segir þetta hafa komið í ljós þegar lögreglumenn tóku eftir samskiptum við einstaklinga sem eru einnig staddir hér á landi og gáfu til kynna að fólkið væri ekki að virða reglur um sóttkví.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu náðist fyrra gengið á upptöku eftirlitsmyndavéla í Smáralind. Hann kom til landsins með Wizz Air þann 5. júní en sá seinni með sama flugfélagi 10. júní. 

Rúmenarnir sex verða nú í sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg þar sem tryggt verður að þeir fari að fyrirmælum um sóttkví. Víðir segir að nú verði hafist handa við að reyna að hafa upp á hinum hópnum, aðallega til að hægt sé að framfylgja reglum um sóttkví. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi