Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja fjölga opinberum störfum í Stykkishólmi

14.06.2020 - 17:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stykkishólmur vill viðræður við ríkið um að nýta sóknarfæri um störf án staðsetningar, sem opnaðist í kórónuveirufaraldrinum. Bæjarstjórinn segir að ríkið hafi þarna tækifæri til að ná markmiðum sínum um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni.

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, segir að ríkið hafi ekki staðið sig sem skyldi í að fjölga störfum á landsbyggðinni og markmið um að tíu prósent ríkisstarfa séu auglýst án staðsetningar 2024 sé ekki í augsýn. Sveitarfélagið ætli að færa ráðherrum tillögur um kosti þess að staðsetja störf ráðuneyta og opinberra stofnana í Stykkishólmi.

„Það eru engar hömlur í sjálfu sér á því að auglýsa störf án staðsetningar og það eru fjölmörg störf sem ríkið er að auglýsa nú þegar, maður sér það bara á ríkisauglýsingunum, sem myndu henta vel í störfum án staðsetningar, en það er bara ekki gert.“

Opinberum störfum fækkað mest í Stykkishólmsbæ

Í nýlegum hagvísi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi kom fram að í Stykkishólmi hefði opinberum störfum fækkað um fjórðung á sex árum. Það er meiri fækkun en í nokkru öðru sveitarfélagi. Jakob segir að það gefi tilefni til þess að stjórnvöld líti sérstaklega til Stykkishólms.

„Það er sjálfsagt að líta til þeirra byggðarlaga þar sem ríkisstörfum hefur fækkað hlutfallslega mest í þessu sambandi. Þá horfir maður kannski líka á flutning á opinberum störfum til Stykkishólms.“

Faraldurinn kenndi fólki að starfa án staðsetningar

Hann segir að í bænum sé ljósleiðaratengd vinnuaðstaða á lausu og ekkert því til fyrirstöðu að fólk taki þegar til starfa. Jafnframt hafi reynsla og lærdómur sem hlaust af fjarvinnu í COVID-19 faraldrinum síðustu mánuði rutt brautina fyrir störf án staðsetningar.

„Ég trúi því reyndar að það sé ákveðin hugsanabreyting sem er að eiga sér stað og mun koma í kjölfarið en ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef svo verður ekki raunin eftir nokkra mánuði,“ segir Jakob.