Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stakkaskipti hjá Strætó í Hafnarfirði

14.06.2020 - 03:36
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Leiðakerfi Strætó í Hafnarfirði verður breytt í dag. Á ferðinni er veruleg uppstokkun og umskipti frá eldra kerfi. Alls verða fimm akstursleiðir lagðar af og tvær teknar upp í staðinn.

Nýju leiðirnar bera númerin 19 og 21 og taka við af leiðum 22, 33, 34, 43 og 44.

Leið eitt mun áfram tengja Hafnarfjörð við nærliggjandi sveitarfélög.

Gert er ráð fyrir að allra fyrsta ferð leiðar 19 verði farin frá Kaplakrika klukkan 9:25 í fyrramálið.

Þar verður staddur hluti þess vinnuhóps sem undirbjó breytingarnar ásamt fulltrúum úr bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Að sögn Strætó einfaldast aksturskerfið í Hafnarfirði með þessum breytingum auk þess sem þær marka fyrsta skrefið í átt að nýju leiðaneti Strætó og Borgarlínu.