Smitin í þjófunum gætu leitt til hópsýkinga

14.06.2020 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Smitin sem greindust í gær gætu leitt til hópsýkinga og bakslags í faraldrinum hér á landi, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Yfirvöld hefðu mjög líklega náð mönnunum fyrr, hefðu þeir verið skimaðir strax við komuna til landsins.

„Þetta getur náttúrulega þýtt að það geta komið upp einhverjar hópsýkingar. Við vitum það og höfum talað um það allan tímann. Og líka sagt að þessu Covid-máli er ekki lokið. Við erum bara að hefja nýjan kafla,“ segir Þórólfur. 

„Við höfum verið í svolitlu logni núna undanfarið en við vitum að þetta ástand og þessi hætta vofir yfir okkur áfram. Og hún mun gera það klárlega næstu mánuði. Og lærdómurinn af því finnst mér vera í fyrsta lagi mikilvægi þess að skima á landamærum. Við hefðum náð þessum aðilum mjög líklega fyrr, ef við hefðum skimað þá strax við komu,“ segir Þórólfur.

Svikamillur í kringum erlend vottorð

Málið sýni líka að fólk geti svindlað sér til landsins hafi það einbeittan brotavilja til þess.

„Þess vegna held ég að það hafi verið rétt ákvörðun hjá okkur að vera ekki að taka mark á erlendum vottorðum. Við höfum séð ýmsar svikamyllur í kringum það,“ segir Þórólfur.

Ekki mannafli til að fylgjast með öllum í sóttkví

​​​​„Ég held að þetta sýni að við verðum að hafa stjórn á málum eins og hægt er. Það er náttúrulega erfitt, við höfum ekki mannafla í að fylgjast með öllum sem eru í sóttkví. Því miður, það væri óskandi að það væri gert. Við höfum í öllu þessu verkefni verið að treysta á heiðarleika fólks, Íslendinga og annarra, og það hefur gefist nokkuð vel. Ég held að þetta sé kannski undantekningin á því,“ segir Þórólfur. 

 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi